Beint í efni

Faðerni fjögurra kynbótanauta leiðrétt

01.07.2019

Um þessar mundir er unnið að yfirferð á ætternisstaðfestingum í tengslum við niðurstöður arfgerðargreininga vegna erfðamengisúrvalsins. Þar hefur komið í ljós að fjögur naut hafa verið skráð á rangan föður og er ýmsu þar um að kenna. Gott er fyrir bændur að skoða skýrsluhaldið sitt og kynbótaáætlanir út frá þessum nýju upplýsingum ef miðað hefur verið við kosti eða kynbótamat fyrrum skráðra feðra.  Ætterni er leiðrétt í Huppu um leið og svona upplýsingar koma fram svo ekki þarf að hafa áhyggjur af því að þetta valdi frekari ruglingi.

 

Ormur 17003

Þannig er að Ormur 17003 frá Egilsstöðum á Völlum er undan Þyt 09078 en ekki Keip 07054 eins og haldið var. Er þar um að ræða endursæðingu þar sem ekki var talið að kýrin hefði haldið við fyrri sæðingu með Þyt 09078, hvað þá gengið þrjár vikur fram yfir með kálfinn.

Skjár 10090

Þá er Skjár 10090 frá Akurey 2 í Landeyjum ekki sonur Ófeigs 02016 heldur er faðir hans Pollur 08054. Vert er að taka það fram að Skjár 10090 kom ekki til framhaldsnotkunar á stöð.

Hrókur 15023

Þriðji er Hrókur 15023 frá Stóru-Hildisey 2 í Landeyjum, þar er talið að nautkálfar á svipuðum aldri hafi víxlast. Faðir Hróks er því Lögur 07047 og móðir hans er Blika 599 en hún er Raftsdóttir 06047. Hrókur bíður nú afkvæmadóms og því gleðilegt að þetta komi fram núna.

Sandur 07014

Loks er það Sandur 07014 en hann er víst sonur Hræsings 98046 en ekki Glanna 98026 eins og talið var. Þar er talið að ruglast hafi verið á stráum við sæðingu þar sem strá beggja nauta báru sama lit og númer þeirra einnig lík.

Þetta staðfestir enn frekar mikilvægi þessa góða verkefnis sem lagt var af stað í. Frekari upplýsingar um nautin og starf nautastöðvar er hægt að finna hér:  www.nautaskra.net