Beint í efni

Fá nýsjálenskir bændur metverð fyrir mjólkina?

10.09.2007

Í fréttabréfinu Dairy Industry Newsletter er því spáð að nýsjálenskir bændur fái allt að 7 NZ$ fyrir kg verðefna (fitu og prótein) sem framleidd verða á yfirstandandi framleiðsluári, sem hófst í byrjun ágúst og endar í maílok á næsta ári. Fyrirtækið Fonterra, sem vinnur úr 95% mjólkurinnar þar syðra, hefur þegar gefið út að greiddir verði 6,40 nýsjálenskir dollarar fyrir kg verðefna, en fallandi gengi gjaldmiðilsins gæti þýtt að verðið fari í 7 dollara. Umreiknað á lítra eru það rétt um 26 krónur.

Verði þetta raunin yrði það metverð fyrir mjólk þar í landi. Mjólkurframleiðslan á Nýja-Sjálandi er mjög stór hluti af hagkerfi landsins og skapar um þriðjung af útflutningstekjum þjóðarinnar. Eins og sjá má hér, mun stórhækkað verð á mjólk og afurðum úr henni hafa víðtæk efnahagsleg áhrif. Tekjuauki framleiðenda við 7 NZ$ á kg verðefna er 2,5 milljarðar dollara eða rúmir 111 milljarðar íslenskra króna, m.v. síðasta ár. Sú fjárhæð hefur mikil áhrif á efnahag dreifbýlisins sérstaklega, en einnig landsins í heild.