Beint í efni

Fá hirðingarsýni komin til rannsóknarstofu LbhÍ

30.07.2010

Þrátt fyrir að heyskapur hafi víðast gengið mjög vel og stutt sé orðið í seinni slátt hafa afar fá hirðingarsýni verið send til rannsóknarstofu LbhÍ enn sem komið er. Einungis um 150 sýni hafa borist til þessa og hafa 70 af þeim þegar verið greind. Skýringin á því að fá sýni hafa borist gæti legið í því að mörg búnaðarsambönd hafa verið með sumarlokanir undanfarið og því hafa sýnin etv. ekki borist áfram. Ástæða er til að benda kúabændum á að hægt er að senda hirðingarsýnin beint til

rannsóknarstofunnar á Hvanneyri til þess að flýta greiningarferlinu. Því jafnar sem stofunni berast sýnin, því hraðar gengur að koma niðurstöðum til baka.

 

Að taka hirðingarsýni

Sýnið þarf að gefa góða mynd af uppskerunni og er oft miðað við að ganga hornalínu spildunnar og taka litla heyvisk innan úr hverjum garða á leiðinni eftir spildunni, skömmu áður en hirt er. Heyinu er svo blandað vel saman í lok sýnatökunnar og tekið úr því hæfilegt magn í endanlegt sýni (ráðleggingar BÍ miða við þéttan heyvöndul, 10-12 cm í þvermál).

 

Frágangur hirðingarsýna

Heyið er sett í poka og hann lofttæmdur sem er afar mikilvægt því annars heldur heyið áfram að verkast og sýnið gefur þá ekki rétta mynd af raunverulegu heyi sem hirt er. Síðan þarf að merkja pokann vel með upplýsingum um býlið (heiti býlis, sveit, póstnúmer og póststöð). Síðan þarf að standa á sýninu númer sláttar, spilduheiti eða -númer, sláttudagur og dagsetning sýnatöku/hirðingar. Taka þarf fram ef um grænfóðursýni er að ræða eða sýni úr fullverkuðu fóðri. Mörg búnaðarsambönd hafa útbúið sérstök stöðluð eyðublöð til útfyllingar með heysýnum. Að lokum er sýnið svo sett í frysti sem fyrst eftir sýnatökuna og þar geymt þar til nægilegt magn er komið til þess að senda til greiningar.