
Fá bandarísk skólabörn bragðbætta mjólk á ný?
26.05.2017
Árið 2012 ákvað ríkisstjórn Obama að banna skólum að bjóða nemendum upp á margskonar matvörur sem innihéldu viðbættan sykur eða hátt fituhlutfall. Þetta þýddi að bæði bragðbætt mjólk og fituríkar mjólkurvörur voru ekki lengur í boði í skólum landsins. Tilgangurinn var að draga úr sykur- og fituneyslu ungmenna í Bandaríkjunum og tryggja með því að skólamötuneytin myndu uppfylla hollustukröfur ríkisstjórnarinnar. Eftir að bannið var sett á hefur hins vegar komið í ljós að það hefur snardregið úr neyslu nemenda í skólamötuneytum auk þess sem matarkostnaðurinn hefur hækkað verulega eftir breytinguna.
Nú hefur því verið lögð fram tillaga af Matvælastofnun landsins um að breyta þessu banni á þann veg að heimila ákveðnar vörur eins og bragðbætta mjólk í þeim tilgangi að auka líkur á að nemendurnir vilji borða í skólanum í stað þess að fara í næstu sjoppu. Þessi tillaga hefur mætt nokkurri gagnrýni og Matvælastofnunin verið vænd um að ganga erinda kúabænda á kostnað lýðheilsu Bandaríkjamanna/SS.