Beint í efni

Fá bætur vegna fellibylsins Írenu

15.09.2011

Nú hefur Bandaríska landbúnaðarráðuneytið gefið út yfirlýsingu um að kúabændur, sem lentu í tjóni vegna fellibylsins Írenu, geta fengið framleiðslutjón sín bætt. Það voru fyrst og fremst bændur í suðurhluta Vermont og austurhluta New York sem lentu í vandamálum með mjólkurframleiðslu sína og þurftu að hella niður mjólk. Á sumum búunum var ekki hægt að ná í mjólkina vegna vatnavaxta en á öðrum þeirra þurfti að hella niður mjólk vegna rafmagnsleysis.

 

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hve tjónið er mikið af völdum Írenu, en ljóst er að margir kúabændur hafa lent í töluverðu tjóni. Bandaríska ríkisstjórnin hefur nú gefið út leiðbeiningar til þarlendra bænda um hvernig þeir geti sótt um tjónabætur en hægt er að fá bætur vegna uppskerubrests, framleiðslutaps og dauðra gripa. Til viðbótar er sérstakur sjóður sem sér um bætur vegna húsa- og tækjaskemmda sem urðu vegna óveðursins/SS-USDA.