Beint í efni

Fá afmarkaða undanþágu vegna verkfallsaðgerða

24.02.2023

Undanþágunefnd Eflingar hefur veitt félögum í Bændasamtökunum sem sinna matvælaframleiðslu afmarkaða undanþágu vegna verkfallsaðgerða félagsins. Undanþágan byggir fyrst og fremst á sjónarmiðum um almannaöryggi, dýravelferð og fæðuöryggi en verkfall vöru- og olíubílstjóra hefur sérstaklega mikil áhrif í landbúnaði og getur ógnað velferð dýra svo dæmi séu tekin.

Undanþágubeiðni Bændasamtakanna er í 18 liðum og var fallist á að veita undanþágu vegna allra þeirra liða. Bændasamtökin áttu góð samtöl við aðila í undanþágunefndinni og eru þakklát fyrir afar jákvætt viðmót.

  • Lituð olía. Undanþágan nær til dreifingar litaðrar olíu til bænda þannig að þeir geti sinnt fóðrum og almennri umhirðu gripa, geti tryggt varaafl, kyndingu og sinnt snjómokstri á heimreiðum. Miðað er við að undanþágan sé útfærð í samráði við olíufélögin og taki mið af eðlilegri þörf aðila.
  • Flutningar. Undanþágan nær til fóðurflutninga, sláturbíla og gripaflutningabíla til að sinn brýnum flutningum.
  • Lágmarks vinnuafl. Undanþágan nær til eldsneytis þannig að hægt sé að koma starfsfólki í landbúnaðarstörfum til og frá vinnu þannig að hægt sé að sinna lágmarksþjónustu.
  • Einnig var veitt undanþága veitt fyrir eldsneyti á bifreiðar dýralækna. Miðað er við að undanþágan sé útfærð í samráð við MAST.


Rétt og skylt er Bændasamtökunum að ítreka að undanþágur eru aðeins veittar þar sem brýn nauðsyn krefur og miðað er við að öll sú þjónusta sem er veitt samkvæmt undanþágubeiðni sé eingöngu lágmarks þjónusta sem tryggi framangreind sjónarmið um öryggi og velferð.

Þakkar Bændasamtökin undanþágunefnd Eflingar það traust sem nefndin hefur til bænda og brýna samtökin jafnframt félagsmenn sína með að undanþágan nær eingöngu til afmarkaðra þátta og að verkfallsbrot munu sjálfkrafa valda því að veiting undanþágunnar verður endurskoðuð af hálfu undanþágunefndarinnar.

Sjá hér undanþágubeiðni ásamt viðbótarupplýsingum Skoða PDF

Bændasamtökin munu vinna að nánari útfærslu ásamt viðeigandi aðilum. Vinsamlegast beinið fyrirspurnum á bondi@bondi.is