Beint í efni

Eyfirskir kúabændur skora á LK að hefja undirbúning á innflutningi erfðaefnis

25.10.2005

Á haustfundi LK og Búgreinaráðs BSE í nautgriparækt í gærkvöldi, sem haldinn var á hótel KEA á Akureyri, var samþykkt ályktun til LK þess efnis að þegar verði hafist handa við undirbúning að kynbætingu á íslenska kúakyninu með erlendu erfðaefni. Ályktunin í heild er svohljóðandi:

Fundur í Búgreinaráði BSE í nautgriparækt, haldinn á Hótel KEA 24. október 2005, beinir því til Landssambands kúabænda að fara nú þegar að huga að undirbúningi á innflutningi erfðaefnis til kynbóta á íslenska kúastofninum.


Greinargerð
Nú er svo komið að íslenska kúakynið er, sökum skammrar endingar og mikilla kálfavanhalda, vart sjálfbært lengur. Á sama tíma hefur sala mjólkurafurða aukist talsvert, en nær engar líkur eru á að gerlegt sé að anna allri eftirspurn markaðarins eftir próteini á yfirstandandi verðlagsári. Einnig liggur fyrir að þrátt fyrir mestu mögulegu erfðaframfarir, yrðu þær að hámarki um þriðjungur til helmingur af því sem er raunin í kúastofnum á t.d. Norðulöndunum.


Því telur fundurinn fulla ástæðu til þess að sú leið sem hér er lögð til verði farin. Með því verður gerlegt að bæta verulega afkastagetu, heilsufar, frjósemi og umgengniseiginleika kúnna. Það mun verða til gríðarlegra hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur afurðanna.
 

Tryggja þarf að hið innflutta erfðaefni nýtist sem best til kynbóta á stofninum. Innflutningur fósturvísa, uppeldi gripa í einangrun, öflun erfðaefnis frá þeim og nýting þess er langur ferill og hvenær sem er á þeim tíma er hægt að hætta við verkefnið ef ástæða þykir til.