Evrópuþingið ósátt við Noreg
08.07.2013
Evrópuþingið hefur harðlega gagnrýnt norsk stjórnvöld fyrir að leggja tolla á innflutt lamba- og nautakjöt frá löndum Evrópusambandsins. Um er að ræða nýja tolla sem Noregur lagði á kjötinnflutninginn 1. janúar sl. en alls nemur tollur á lambakjöt 344% og 429% á nautakjöt.
Helstu ástæður þess að Evrópuþingið hefur átalið tollana er að í fyrra var gert samkomulag á milli Noregs og Evrópusambandsins um lækkun á tollum, en kjöt var þó undanskilið. Þessir tollar norskra stjórnvalda, sem settir eru á til þess að stuðla að aukinni framleiðslu heima fyrir, eru sem sagt í fullkomnu samræmi við samkomulagið en fulltrúar Evrópusambandsins vilja meina að „andi“ samningsins hafi verið sá að engir háir tollar ættu að gilda við innflutning á vörum á milli samningsaðilanna. Norsk stjórnvöld eru greinilega á öðru máli, sem betur fer fyrir þarlenda kúa- og sauðfjárbændur/SS.