Beint í efni

Evrópusambandið tefur Finnland varðandi upprunamerkingar!

27.03.2018

Finnska ríkisstjórnin hefur ákveðið að allir veitingastaðir landsins skuli upprunamerkja það kjöt og þann fisk sem er á boðstólum. Afar jákvæð og framsækin tillaga í þágu þarlendrar matvælaframleiðslu en þessi ákvörðun þar þarf þó samþykki á vegum Evrópusambandsins, áður en hún nær fram að ganga. Upphaflega var stefnt að því að þessar nýju reglur myndu taka gildi í Finnlandi nú í vor, en nú er ljóst að af því verður ekki þar sem Evrópusambandið hefur hafnað því að samþykkja málið óbreytt og sent tillöguna til baka og óskað ítarlegri gagna um tilganginn með þessari kröfu. Í raun var því hafnað að öryggi neytenda væri stefnt í voða ef þeir vissu ekki hvaðan maturinn væri innan Evrópusambandsins.

Finnska ríkisstjórnin ætlar þó ekki að gefa sig í þessu máli og styður sinn landbúnað og sjávarútveg með kjafti og klóm og hefur verið haft eftir Jari Leppä, landbúnaðarráðherra landsins, að þetta mál sé mikilvægt fyrir ríkisstjórnina og snúist um gefa neytendum landsins eðlilegar upplýsingar og val. Málið er því alls ekki búið og hefur verið ákveðið að senda inn nýja tillögu til samþykktar hjá Evrópusambandinu í júní næstkomandi/SS.