Beint í efni

Evrópusambandið setur kröfur um sérmerkingar á erfðabreyttum matvælum

29.11.2002

Eftir erfiðar viðræður voru í morgun samþykktar nýjar reglur um erfðabreytt fóður og matvæli. Að sögn Mariann Fischer Boel, formanns landbúnaðarráðs ES, hefur með þessu verið tekið stórt skref í þá átt að gefa neytendum raunverulegt val, þegar um erfðabreytt matvæli er að ræða. „Þetta er stórsigur fyrir neytendur í Evrópu“, sagði hún.

Hinar nýju reglur, sem ráðið samþykkti í morgun, eru:

  • Allt fóður, sem inniheldur hráefni sem hefur orðið til vegna erfðabreytinga, skal fá vottun áður en það er sett á markað og skal ennfremur vera sérstaklega merkt.
  • Öll matvæli sem byggja á notkun hráefna sem orðið hafa til vegna erfðavísaflutninga skulu sérmerkt, jafnvel þó svo að ekki sé unnt að greina upphaflegt hráefni í vörunni (s.s. í sojaolíu). Undantekning er þó heimil, ef innihald erfðabreytta hráefnisins er minna en 0,9%, sem minnkar í nokkrum áföngum á næstu misserum niður í 0,5%.
  • Fullt samþykki ES þarf fyrir því að setja á markað ný matvæli sem innihalda erfðabreytt hráefni.

Þess ber að geta að til þess að reglurnar fái fullt gildi, þarf Evrópuþingið að samþykkja reglurnar. Allt bendir til þess að svo verði, þar sem landbúnaðarráðherrar allra Evrópusambandslandanna hafa þegar samþykkt reglurnar.

 

Geta má þess að nýlega hafa Bandaríkjamenn hafnað því að merkja sérstaklega matvæli sem kunna að innihalda hráefni úr erfðabreyttum plöntum eða lífverum.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Hollustuvernd ríkisins gilda svo til allar kröfur Evrópusambandsins um matvælaöryggi hérlendis, utan þess kafla sem fjallar um erfðabreytt matvæli. Hérlendis gilda ekki neinar reglur um sérmerkingar enn sem komið er.