Beint í efni

Evrópusambandið með björgunarpakka

15.09.2015

Evrópusambandið hefur nú loks brugðist við alvarlegri stöðu kúabænda í löndum sambandsins og ákveðið að leggja þeim til 500 milljónir evra eða um 72 milljarða króna. Þetta kann að virka sem stór upphæð og er það vissulega en sé horft til mjólkurframleiðslunnar hjá þeim löndum sem tilheyra sambandinu, þá eru þetta smáaurar. Alls nemur árleg mjólkurframleiðsla 145 milljörðum lítra og björgunaráætlunin svarar því til um 50 aura á hvern framleiddan líter. Sú upphæð mun nákvæmlega engu bjarga ef jafnt verður deilt niður á alla framleiðslu.

 

Það sem er verið að skoða er að greiða sérstaka uppbót á kúaslátrun en reiknað hefur verið út að umframframleiðsla landanna í Evrópusambandinu sé um fjórir milljarðar lítra eða um 2,8%. Til þess að draga úr framleiðslunni um þetta magn er því horft til þess að veita sérstaka styrki til þeirra bænda sem ætla að hætta og slátra kúm sínum. Vonast er til þess að ef slátrunarstyrkir verða settir á, þá ýti það við þeim sem þegar framleiða mjólk með tapi og hafa stefnt á það að hætta á komandi misserum hvort sem er t.d. vegna aldurs eða aðstöðuleysis.

 

Ef greiddar yrðu t.d. um 40 þúsund krónur aukalega fyrir slátrun á kúm, myndi þriðjungur björgunarpakkans duga til þess að slátra nógu mörgum kúm að mjólkurframleiðslan myndi dragast saman um 2,8%. Þetta er þó ekki ákveðið enn, enda óttast sumir að stóraukin slátrun kúa leiði einunigs til annars hruns og að þessu sinni á nautakjöti. Ekkert liggur s.s. fyrir í dag annað en það að búið er að tryggja fjármagn í sérstakan aðgerðarpakka til bjargar kúabændum, hvernig þetta verður svo útfært mun skýrast á allra næstu dögum/SS.