
EUROP-kjötmatskerfið. 2. kapítuli – naut frá september til desember
19.12.2017
Þá er komið að næsta kafla í fréttum af innleiðingu EUROP kjötmatskerfisins fyrir nautgripakjöt. Að þessu sinni er skoðað hvernig matið hefur verið að þróast hjá Kaupfélagi Skagfirðinga síðan kjötafurðastöðin byrjaði að borga eftir EUROP-kerfinu.
Upplýsingarnar eru fengnar frá Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga, og að auki gaf einn bóndi sem leggur inn hjá KS, leyfi fyrir því að tölur úr hans innleggi væru birtar sérstaklega. Er þessum aðilum þakkað kærlega fyrir. Sláturtíminn er frá 1. september til 15. desember.
Það skal tekið fram að þeir annmarkar eru á safninu að ekki er hægt að sjá hvort um holdagrip eða Íslending sé að ræða, né er hægt að bera saman hvernig þessir gripir myndu flokkast í gamla kerfinu. En greinarhöfundur gerir í það minnsta heiðarlega tilraun til að álykta um þá hluti út frá eldra gagnasafni, þar sem bæði kerfi voru notuð, og hægt var að greina á milli kynja.
Heildarsafnið
Í heildina er um 242 gripi að ræða. Meðalþyngdin hjá öllum þessum gripum er 254 kg. Við útreikning á meðalholdfyllingu- og fitu voru flokkunum gefin númer (0-10 fyrir holdfyllingu og 0-12 fyrir fitu) og meðaltalið reiknað út frá því. Meðaltalsgripurinn fékk 4,34 fyrir holdfyllingu og 4,31 fyrir fitu, sem leggst út fyrir að vera góður O2.
Skipt eftir þyngdarflokkum
Þar sem KS borgar eftir þremur þyngdarflokkum, ákvað undirritaður að greina betur ýmsa þætti eftir þessum sömu flokkum.
Undir 200kg
Á myndinni hér að neðan sést hvernig gripir sem voru undir 200kg dreifast eftir kjötmatsflokkum. Í heildina eru þetta 39 gripir af 242 (16%), og liggur lunginn af þeim (27 gripir) í flokkum á bilinu P+2- til O-2. Meðalgripurinn í þessum flokki fær 2,8 fyrir holdfyllingu og 3,8 fyrir fitu, sem er tæpir O-2, og þyngdin að meðaltali upp á 166 kg.
Í töflu 1 er gripunum svo skipt upp eftir besta og versta fjórðungnum, og svo helmingnum sem liggur í miðjunni.
Skýringar við töflu 1:
Hold: Meðalholdastig hjá gripum í viðkomandi flokki á skalanum 0-10
Fita: Meðalfitustig hjá gripum í viðkomandi flokki á skalanum 0-12
EUROP: Hvar meðalgripurinn væri á kjötmatsskalanum miðað við meðalholda- og fitustig.
Þyngd: Meðalþyngd gripa í flokki.
KR/KG: Meðalverð á innlagt kílógramm í viðkomandi flokki
UN1A: Kílóverð í flokki UN1A samkvæmt gömlu verðskrá KS til samanburðar, þar sem allir gripir í þessum þyngdarflokki fóru í UN1A í eldra gagnasafni, þar sem flokkað var eftir báðum kjötmatskerfum.
Gripir á bilinu 200-250kg
Í þennan flokk fara 63 gripir (26% af heildinni), og það má segja að kjarninn í þessum hópi taki við þar sem undir 200kg gripirnir hættu, þar sem 47 gripir liggja á bilinu O-2- til O2. Í þessum þyngdarflokki er meðalgripurinn að flokkast með 3,8 og 4,2 sem þýðir O2, og meðalþyngdin er 227kg.
Hér fyrir neðan er svo tafla 2, þar sem gripum er flokkað eftir holdfyllingu, í bestu 25%, miðlungs 50% og verstu 25%.
Skýringar við töflu 2:
Hold: Meðalholdastig hjá gripum í viðkomandi flokki á skalanum 0-10
Fita: Meðalfitustig hjá gripum í viðkomandi flokki á skalanum 0-12
EUROP: Hvar meðalgripurinn væri á kjötmatsskalanum miðað við meðalholda- og fitustig.
Þyngd: Meðalþyngd gripa í flokki.
KR/KG: Meðalverð á innlagt kílógramm í viðkomandi flokki
UN1A: Kílóverð í flokki UN1A samkvæmt gömlu verðskrá KS til samanburðar, þar sem allir gripir í þessum þyngdarflokki fóru í UN1A í eldra gagnasafni, þar sem flokkað var eftir báðum kjötmatskerfum.
Gripir yfir 250kg
Það er ánægjulegt að meirihlutinn af gripunum (58%) fari í þennan þyngdarflokk. Gera má ráð fyrir því að hér séu flestir holdagripirnir, sem útskýrir mestan breytileika í kjötmati, allt frá O-2- upp í U3. Að meðaltali er gripur í þessum flokki 291kg og flokkast með 5 og 4,5 (O+ og mitt á milli 2 og 2+).
Í töflu 3 er gripum yfir 250 kg að þyngd skipt upp eftir því hvernig þeir flokkuðust í holdfyllingu, í bestu 25%, miðlungs 50% og verstu 25%.
Skýringar við töflu 3:
Hold: Meðalholdastig hjá gripum í viðkomandi flokki á skalanum 0-10
Fita: Meðalfitustig hjá gripum í viðkomandi flokki á skalanum 0-12
EUROP: Hvar meðalgripurinn væri á kjötmatsskalanum miðað við meðalholda/meðalfitustig.
Þyngd: Meðalþyngd gripa í flokki.
KR/KG: Meðalverð á innlagt kílógramm í viðkomandi flokki
UN1-ÚA og UN1A: Kílóverð í flokkum UN1 Úrval A og UN1A samkvæmt gömlu verðskrá KS til samanburðar, þar sem yfir 250 kg gripirnir í eldra gagnasafni dreifðust í báða þessa flokka.
Heildarverðið
Fyrir gripi undir 200 kg, þá er heildarverðið um 1,4% hærra samkvæmt EUROP matinu heldur en eldra mati (miðað við að allir færu í UN1A).
Fyrir gripi á bilinu 200-250 kg, þá er verðið um 4,6% hærra samkvæmt EUROP matinu heldur en eldra mati (miðað við að allir færu í UN1A).
Fyrir gripi yfir 250 kg, þá er EUROP kerfið að borga 1,7% lægra en ef allir gripir færu í UN1 úrval A, en 3,1% hærra en gamla matið ef allir gripir færu í UN1A. Nánari ágiskanir á hvernig þessir gripir gætu dreifst á milli UN1 úrval A og UN1A er gata sem undirritaður ætlar ekki að feta.
Samanburður á Íslendingum
Þar sem hrágögnin frá Kjötafurðastöð KS skilja ekki á milli hvort um sé að ræða Íslendinga eða holdagripi, fékk undirritaður upplýsingar frá bónda sem kaupir íslenska nautkálfa af mjólkurbændum og elur þá upp. Voru þeir síðan bornir saman við naut frá sama bónda sem voru send til slátrunar á fyrri part ársins, þ.e. áður en byrjað var að greiða eftir EUROP matinu. Allir eru lagðir inn hjá KS. Þar sést greinileg bæting í flokkun eftir holdfyllingu, og án þess að vera með of miklar getgátur, þá má leiða að því líkur að þetta skýrist að einhverju leiti af því að kjötmatið sjálft sé einfaldlega að þróast. Við má svo bæta að 6 af þessum 16 gripum sem slátrað var í september til desember fóru í flokkinn R-2+.
Verðskráin
Það má endalaust skeggræða hvernig verðskrá ætti að vera byggð upp. Hér fyrir neðan er mynd af hvernig verðskrá KS lítur út. Hún er að mestu línuleg, sem er fyllilega í takt við að EUROP matið sjálft er línulegt. Þó er örlítið brot í öllum línum við O- flokkinn, sem þýðir að það er meiri hlutfallslegur verðmunur frá P- upp í O- en frá O- og áfram upp úr.
Inn á þetta línurit hafa svo verið sett merki fyrir flokkana úr töflum 1, 2 og 3 (bestu 25%, miðlungs 50% og verstu 25%). Út úr því má sjá að miðlungs 50% liggja í öllum tilvikum nær versta fjórðungnum heldur en þeim besta. Það gæti verið göfugt markmið að miðlungsflokkurinn myndi færast nær þeim besta í framtíðinni.
Kjötframleiðsla með mjólkurkyni
Það er stundum sagt að vegna þess að íslenska kúakynið sé mjólkurframleiðslukyn og þar af leiðandi séu ekki miklir möguleikar til bætingar á kjöteiginleikum. Í ofanálag hafi ekki verið ræktað fyrir kjöteiginleikum og slíkt taki langan tíma. Í þessu samhengi er þó vert að benda á eitt, og það er hugtakið arfgengi. Með því er verið að skilgreina hversu mikið hlutfall erfðir eiga í hvernig einstaklingur lítur út, eða stendur sig í ýmsum mælanlegum þáttum (t.d. nyt og þyngd). Sé arfgengi 0,4 er talað um að erfðirnar eigi 40% hlut í því hvernig gripurinn stendur sig í þessum ákveðna eiginleika, og umhverfi þá 60%.
Ekki veit ég hvert arfgengi fyrir kjöteiginleika er hjá íslenska kúakyninu, en hjá 8 erlendum kúakynum (7 holdakyn, og Holstein) reyndist arfgengi holdfyllingar í EUROP kerfinu vera á bilinu 0,06 til 0,36. Það segir að umhverfi spili gríðarlega stórt hlutverk í þessum efnum. Það er því ekki hægt annað en hvetja bændur til að leita sér ráðgjafar og upplýsinga um hvernig sé hægt að bæta fóðrun og aðbúnað.
Það sést á töflum 1,2 og 3 að þeir gripir sem standa sig vel innan hvers þyngdarflokks eru verðlaunaðir, á meðan í gamla kerfinu hefðu þeir flestir fengið sama verð. Það má ekki gleyma því að ein af ástæðunum fyrir því að skipt er um kjötmatskerfi er sú að gamla kerfið var ekki í stakk búið til að bregðast við auknum kröfum um gæði, og til að bregðast við samkeppni frá innfluttu kjöti.
Á ofanverðri jólaföstu 2017,
Axel Kárason