EuroGenomics stækkar
22.09.2011
Eins og kúabændur þekkja er Viking Genetics kynbótasamstarf norrænna kúabænda, þ.e. í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Viking Genetics er nú með einstaka stöðu á heimsvísu vegna sérstöðu gagnaskráningar s.s. í tengslum við heilsufarsupplýsingar.
Félagið, sem er í eigu kúabændanna sjálfra, hefur á undanförnum árum viljað efla enn frekar starfsemi sína. Árið 2009 var stofnaður félagsskapurinn EuroGenomics en að því félagi standa nokkur af fremstu kynbótafélögum heims í ræktun á Holstein nautgripum en þessi félög eru, auk Viking Genetics, UNCEIA (Frakklandi), CRV (Hollandi), DHV og VIT (bæði frá Þýskalandi).
EuroGenomics gekk nýverið frá samningi við spænska kynbótafélagið CONAFE, sem er ræktunarfélag um Holstein nautgripi á Spáni og byggir á starfsemi fjögurra þarlendra kynbótafyrirtækja. Í kjölfar þessa samstarfssamnings nær nú gagnagrunnur EuroGenomics yfir 20 þúsund afkvæmadæmd naut frá sjö löndum, sem mun vafalítið skila sér vel til þeirra landa sem að þessu samstarfi standa/SS.