Eru drykkjarkerin full af bakteríum?
13.07.2013
Það þekkja allir kúabændur að drykkjarker geta orðið afar óhrein á stuttum tíma enda bera nautgripirnir fóðurleifar með sér í kerin og þar verða þær oft eftir. Í drykkjarkerum skapast oft afar hagstæð skilyrði fyrir bakteríuvöxt enda bæði til staðar raki, næring og ylur. Sé nægt rennsli á vatninu og það því mjög kalt er þetta trúlega minna vandamál en þar sem vatnið nær að standa og volgna.
Á sumrin, þegar heitt er í fjósum, geta hæglega orðið til staðir þar sem vatnið er verulega mengað af bakteríum og geta slíkir drykkjarstaðir haft áhrif á sjúkdóma s.s. tíðni júgurbólgu svo dæmi sé tekið. Við mælum með því að þrífa drykkjarker mjólkurkúa reglulega og aldrei sjaldnar en þrisvar í viku.
Góð vinnuregla er einfaldlega að gera þetta alla mánudags-, miðvikudags- og föstudagsmorgna – jafnt sumar sem vetur! Þegar drykkjarker eru hreinsuð á að nota til þess góðan handbursta og passa vel að fara út í öll horn og sér í lagi að þrífa vel í kringum flotholt og/eða þann búnað sem stjórnar flæði vatns inn í viðkomandi ker. Sé þrif á kerum sett í gott skipulag tekur það lítinn tíma að hreinsa þau, 1-2 mínútur hvert ker, og hugsanlegt vandamál er úr sögunni með örfárra mínútna vinnu í viku hverri!
Þar sem geldkýr eru hafðar sér í stíu er vatnsnotkunin verulega mikið minni en hjá mjólkurkúnum og endurnýjun vatns eftir því. Því getur verið nauðsynlegt að þrífa drykkjarker hjá geldkúnum oftar en hjá mjólkurkúnum. Þetta gildir einnig um drykkjarstaði gripa í uppeldi/SS.