Ertu með kynbótaáætlun?
22.03.2014
Hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er boðið upp á gerð Kynbótaáætlana og hafa fleiri og fleiri kúabændur áttað sig á gagnsemi þess að láta gera þetta fyrir sig. Okkur langaði að fræðast aðeins um það hvernig þetta færi fram og spurðum hana Elinu Nolsöe Grethardsdóttir, kynbótafræðing hjá RML, um málið.
En í hverju felst þessi þjónusta RML? „Þessi þjónusta er í raun tvíþætt og byggir á því að gera annars vegar kynbótaáætlun og svo hins vegar pörunaráætlun. Þegar við gerum þessar áætlanir tökum við tillit til skyldleika og pössum upp á að velja ekki naut sem eru skyld einstaklingnum, síðan er horft á kynbótagildi, bæði hjá kúnni s.s. hvar hennar helstu kostir liggja, hvernig afurðirnar eru og hvernig útlitsdómur hennar er. Síðan er valið naut eftir því hvað hentar best en ekki er endilega víst að valið verði það naut sem gefur afkvæminu hæsta kynbótagildið, þar sem taka þarf tillit til skyldleika og einnig þarf að huga að því að dreifa nautavalinu í hjörðinni í heild. Það er nefninlega stundum þannig að ákveðið naut passar best á flestar kýrnar eða kvígurnar, en passa verður að dreifa nautavalinu svo ekki stefni í óefni síðar meir“.
En þarf bóndinn sjálfur að gera eitthvað eða er þetta að fullu í höndum ráðgjafanna hjá RML? „Nei við vinnum þetta að sjálfsögðu saman og áður en hafist er handa við að vinna kynbótaáætlunina er gripalisti sendur til bóndans og þá gefst honum kostur á að skrá athugasemdir við gripina s.s. ef einhverjar kýr reynast glæsigripir eða gallagripir þó svo að kynbótagildið segi ekki endilega til um það. Við tökum svo tillit til þessara athugasemda þegar áætlunin er unnin“, sagði Elin í viðtali við naut.is og bætti við: „svo þegar við höfum lokið við gerð áætlunarinnar sendum við hana til bóndans en í henni gerum við greiningu á stöðu búsins og núverandi kynbótagildi hjarðarinnar. Þannig er svo hægt að bera það saman við meðalkynbótagildi í stofninum á landsvísu og sjá hvar búið stendur. Einnig er gerð greining á útliti gripanna og hverjir séu helstu kostir eða gallar hjarðarinnar miðað við landið í heild“.
Að sögn Elinar er svo að sjálfsögðu gerð pörunaráætlun sem gildir í hálft til eitt ár í senn og er hún send til bóndans, á sumum landssvæðum fá viðkomandi frjótæknar einnig áætlunina. Í pörunaráætluninni koma fram tillögur að nautavali, eitt „aðal-naut“ er valið og tvö naut til vara og einnig kemur fram hvað kynbótagildi væntanlegs afkvæmis verði, sé kýrin sædd með sæði úr „aðal-nautinu“. Við val nautanna er miðað við að hafa um það bil helming nautanna óreynd, eins og mælt er með að bændur geri.
Ef þeir kúabændur sem lesa þetta hafa áhuga á að panta þjónustuna, hvað eiga þeir þá að gera? „Það er auðveldast að panta á netinu inni á heimasíðu RML. Þar er valin „Búfjárrækt“ efst í stikunni á forsíðunni og þá kemur upp listi þar sem á að velja „Nautgriparækt“ og þar undir „Kynbótaáætlanir“. Þá kemur upp smá útskýring á því í hverju slík kynbótaáætlun felst og neðst hægra megin er svo hægt að ýta á „Panta kynbótaáætlun“. Þá kemur upp valgluggi þar sem hægt er að skrifa inn helstu upplýsingar og þá getur maður jafnframt hakað við það sem maður óskar sérstaklega eftir að lögð verði áhersla á og skiptir mestu máli fyrir hjörðina á búinu“, sagði Elin að lokum í viðtali við naut.is. Til enn frekari einföldunar er hér slóð beint á pöntunarsíðuna: http://www.rml.is/is/bufjarraekt/nautgriparaekt/kynbotaaaetlanir-nautaval-/panta-kynbotaaaetlun-nautaval/SS.