Beint í efni

Ert þú aflögufær með hey?

18.05.2010

Vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hefur skapast óvissa um fóðuröflun á öskufallssvæðinu í sumar. Fyrirsjáanlegt er að talsvert viðbótarhey þarf inn á svæðið og því er nauðsynlegt að tryggja nægar heybirgðir fyrir haustið.

Sveitarstjórnir Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps hafa falið Bændasamtökum Íslands og Búnaðarsambandi Suðurlands að afla upplýsinga um þá bændur sem eru viljugir til þess að selja gæðahey inn á áhrifasvæði eldgossins.

 

Um er að ræða:

1)  Fyrningar sem unnt er að flytja með skömmum fyrirvara
2)  Nýtt hey sem verður til ráðstöfunar seinni hluta sumars

Samkvæmt lögum og reglum Bjargráðasjóðs bætir hann bændum tjón sem þeir verða fyrir vegna uppskerubrests.

Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar vegna flutnings á heyi á milli varnarlína en þær eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar. Heimilt er að flytja hey inn á svæðið af öllum líflambasvæðum. Óheimilt er að flytja hey frá Árnessýslu, Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu og Austurlandi sunnan Smjörfjallalínu og norðan Hamarsfjarðarlínu. Flutningur inn á áhrifasvæði gossins af öðrum svæðum á landinu er háð mati Mast í hverju tilviki fyrir sig. Sú kvöð hvílir á kaupanda í öllum tilfellum að afla leyfis hjá Mast vegna viðskipta með hey.

 

Það er mikilvægt að taka fram að með þessari auglýsingu er eingöngu verið að kanna mögulegt framboð á heyi en ekki ábyrgjast viðskipti. Upplýsingum um seljendur verður komið áleiðis til sveitarfélaga á viðkomandi svæðum sem síðan miðla þeim til væntanlegra kaupenda.

 

Þeir bændur sem telja sig reiðubúna að selja fyrningar eða gefa fyrirheit, án skuldbindinga, um hey í lok sláttar vinsamlegast hafið samband við Bændasamtökin í síma 563-0300 eða sendið tölvupóst á bella@bondi.is. Nauðsynlegt er að fram komi áætlað magn sem hægt er að selja, mat á heygæðum og lágmarksverð. Framgangur málsins ræðst m.a. af þróun eldgossins, skipulagi heyflutninga og öryggissjónarmiðum.

 

Mikilvægt er að bændur láti vita strax. Unnið er að heildaráætlun um fóðuröflun á gossvæðinu og því er nauðsynlegt að fyrir liggi sem allra fyrst yfirlit um mögulegt heyframboð utan svæðisins.

Bændasamtök Íslands og Búnaðarsamband Suðurlands