Erlingur Teitsson nýr formaður SAM
12.03.2011
Á aðalfundi SAM, sem haldinn var föstudaginn 11. mars, var Erlingur Teitsson kjörinn formaður stjórnarinnar og tók hann við formennsku af Rögnvaldi Ólafssyni, sem var kjörinn varaformaður. Á fundinum var greint frá rekstrarniðurstöðu 2010 en tekjur félagsins námu 124,9 milljónum en einnar milljón króna tap varð á árinu. Laun og annar starfsmannakostnaður var stærsti einstaki kostnaðarliðurinn með 71,0 milljónir.
Stór þáttur í rekstri SAM er rekstur rannsóknarstofanna en árið 2010 voru greind 34.826 innleggssýni og reyndist faldmeðaltal
frumutölu þeirra 217 þúsund sem er afar góður árangur og hefur það aldrei verið lægra. Árið 2009 var faldmeðaltalið 230 þúsund. Faldmeðaltal líftölu reyndist 16 þúsund og er það lækkun um 1 þúsund frá fyrra ári. Meðalfitan reyndist óbreytt á milli ára eða 4,10% en meðalpróteinið lækkaði um 0,03% frá 2009 eða úr 3,34% í 3,31%.
Ýmsar aðrar áhugaverðar upplýsingar frá rannsóknarstofum SAM má lesa í meðfylgjandi skjali.
Mælingarniðurstöður rannsóknarstofa SAM 2010