Erlend afurðafyrirtæki með sterk ársuppgjör
25.02.2016
Þessa dagana birta helstu afurðafélög heimsins í mjólkurvinnslu ársuppgjör sín vegna ársins 2015 og virðast flest þeirra vera að skila góðu uppgjöri. Stærsta afurðafélagið hér í norðurhluta Evrópu er framleiðendasamvinnufélagið Arla en félagið var rekið með 42ja milljarða hagnaði á síðasta ári eða sem nemur 2,7% af veltu. Reyndar varð samdráttur í veltu félagsins á árinu samhliða lægra afurðaverði seinnipart ársins en heildarveltan nam alls 1.460 milljörðum íslenskra króna sem er um 50 milljörðum lægri upphæð er árið 2014. Að vanda er tekjuafganginum skipt á milli bændanna að mestu en félagið greiðr nú 1,4 krónur sem uppbót á alla innvegna mjólk frá félagsmönnum á síðasta ári. Til þess að setja það í samhengi við innvigtunina skilar það t.d. dönsku meðalbúi 2,6 milljónum íslenskra króna.
Norska afurðafélagið Tine, sem einnig er samvinnufélag framleiðenda líkt og Arla, hefur einnig skilað sínu ársuppgjöri en alls velti félagið 330 milljörðum íslenskra króna og nam hagnaður þess 25 milljörðum íslenskra króna sem er methagnaður hjá Tine eða 7,6% af veltu! Eins og við höfum áður grein frá fór Tine í miklar og á tíðum erfiðar hagræðingaraðgerðir á árinu þrátt fyrir að ekki væru teljandi erfiðleikar í sölu hjá félaginu. Það var einfaldlega talið mikilvægt að búa í haginn fyrir ófyrirséða erfiðleika og stjórn félagsins hitti svo sannarlega naglann á höfuðið þar. Félagið mun greiða eigendum sínum 8,7 íslenskar krónur í uppbót á hvert kíló innveginnar mjólkur og gera það að jafnaði 1,4 milljónir íslenskra króna á hvern meðal innleggjenda hjá Tine.
Þá hefur franski risinn Danone einnig greint frá sínu rekstraruppgjöri en fyrirtækið skilaði einnig góðum hagnaði á síðasta ári. Alls nam hann 181 milljarði íslenskra króna sem er 14% hagnaðaraukning frá árinu 2014. Fyrirtækið er hinsvegar, ólíkt bæði Arla og Tine, í eigu fjárfestingarfélags (Sofina) og fá því kúabændurnir sem leggja inn mjólk hjá Danone ekki beina hlutdeild í þessum mikla hagnaði/SS.