Beint í efni

Erfitt að greina sársauka hjá kúm

19.06.2013

Þó svo að kýr finni sársauka eins og önnur spendýr sýna þær það afar sjaldan. Þetta er megin niðurstaða vísindamanna við Háskólann í Árósum en þeir unnu að tilraun þar sem tilgangurinn var að mæla sársaukaskyn kúa. Ef hundur finnur til sársauka er varla nokkur í vafa um líðan hundsins en nautgripir sýna ekki viðbrögð við sársauka með sama hætti. Skýringin er talin felast í nátttúrulegu eðli þeirra þ.e. að gefa ekki frá sér t.d. hljóð að óþörfu. Vanlíðanin sést þó vel á atferlinu t.d. með því að gripurinn gæti reynt að einangra sig frá hópnum, ganga hægt um, hreyfa eyrun sjaldnar en ella, vera með hálflokuð augun eða jafnvel að gnísta gómum.

 

Spyrja má hvernig þetta er fundið út, en það er einfaldlega gert með því að fylgjast með viðbrögðum gripa sem eru veikir (júgurbólga, lungnabólga) eða hafa fengið meðhöndlun sem talin er valda sársauka (hornskelling). Hluta hópsins er svo gefið verkjastillandi lyf en hinum hlutanum ekki og svo er fylgst með hegðun þeirra. Þannig kom t.d. í ljós að kýr sem hafa svæsna júgurbólgu ætti alltaf að meðhöndla með verkjastillandi lyfjum svo þeim líði betur/SS.