Beint í efni

Erfið staða nautgriparæktar í Eþíópíu

05.07.2013

Nýverið var birt skýrsla um möguleika nautgriparæktar í Eþíópíu og er óhætt að segja að staðan sé afar erfið. Ríkisstjórn landsins stóð að gerð skýrslunnar en á bak við hana standa margir af fremstu vísindamönnum og ráðunautum landsins. Ekki þarf að koma á óvart að skýrsluhöfundar telja helsta vandann vera fóðuröflunina enda flestum kunnugt um mikla þurrka sem oft herja á landið en einnig er bent á í skýrslunni að breytt landnot geti valdið samdrætti í nautgriparækt.

 

Takmarkað framboð á fóðri hefur valdið því að fóðurkostnaður er afar hár og þar af leiðandi afurðaverðið einnig. Fyrir vikið eiga kúabændur í Eþíópíu í mestu vandræðum með að mæta innflutningi á nautgripaafurðum erlendis frá vegna slæmrar samkeppnisstöðu. Til viðbótar hefur hið háa fóðurverð dregið úr framleiðslunni, sem hefur svo aftur haft áhrif á hagkvæmni vinnslunnar sem dregur eðlilega einnig úr samkeppnishæfninni.

 

Fram kemur í skýrslunni að þó svo að bæði bændur og afurðastöðvar standi illa, þá hafa aðrir milliliðir getað tekið til sín ásættanlega þóknun við sölu afurðanna.

 

Skýrsluhöfundar telja þó að hægt sé að bæta stöðuna verulega með aukinni sérhæfingu og stækkun búanna. Auk þess er lagt til að ríkisstjórnin komi að málinu og setji á fót kerfi sem styður við innlenda fóðurframleiðslu. Þá er jafnframt lagt til að stofna sérstakt átaksverkefni í nautakjötsframleiðslu með aðkomu ríkisins, háskóla og afurðastöðva/SS.