Beint í efni

Erfið staða á svissneska markaðinum

20.06.2016

Staðan á svissneska mjólkurframleiðslumarkaðinum er afar erfið sem stendur en þar er afurðastöðvaverð nú afar lágt og ekki verið lægra að raungildi í 50 ár! Landið lagði niður kvótakerfið í mjólkurframleiðslunni árið 2009 en komst auðveldlega í gegnum þann skafl á þeim tíma en áhrif heimsmarkaðsverðsins nú um stundir er hins vegar að hafa þessi miklu áhrif í á svissneska kúabændur.

 

Landið er opið fyrir töluverðum innflutningi mjólkurvara og flæða nú yfir landið ódýrar vörur sem þarlendir geta á engan hátt keppt við enda framleiðslukostnaður mjólkur í Sviss hár m.a. sökum erfiðrar legu lands, smárra búa og landlítilla auk þess sem eitt algengasta kúakynið í Sviss er ekki sérlega afurðamikið. Það er sér í lagi ostaframleiðsla landsins sem hefur lent í erfiðleikum og hafa þarlendar afurðastöðvar dregið úr framleiðslu á hinum fræga osti Emmantaler til þess að minnka framboðið og þar með vonandi að keyra verðið heldur upp á við. Vonandi tekst hinum svissnesku kúabændum og afurðastöðvum  þeirra að ná tökum á stöðunni enda gæti það skipt málið fyrir íslenska kúabændur einnig þar sem horft hefur verið til útflutnings mjólkurvara frá Íslandi til Sviss og því mikilvægt að verðþol þess markaðar sé til staðar/SS.