
Erfðamengisúrval: sýni send til greiningar
30.11.2020
Fyrstu sýni vetrarins voru send til greiningar hjá Eurofins í Danmörku sl. fimmtudag, 26. nóvember. Þetta kemur fram í frétt á vef RML. Um er að ræða 1.182 vefjasýni úr kúm sem safnað hefur verið hjá bændum og nautum fæddum 2018, 2019 og 2020 á Nautastöðinni á Hesti. Þá voru einnig send 63 sæðissýni úr eldri nautum sem ýmist fundust ekki við síðustu greiningar eða misfórust þá. Í þeim hópi er að finna gamla „matadora“ sem eiga nokkra erfðahlutdeild í stofninum og því skiptir verulegu máli fyrir verkefnið að fá arfgerðargreiningu á þeim. Þarna má nefna gamalkunnug naut eins og Sorta 90007, Almar 90019, Soldán 95010, Font 98027 og Balda 06010.
Nú stendur yfir sýnataka á búum en ætlunin er að taka í heildina um 4 þús. sýni á um 250 búum um land allt. Þetta er þó nokkurt átak, ekki síst ef haft er í huga að hætt er við að veður og færð setji strik í reikninginn á komandi vikum. Búið að heimsækja 43 bú nú þegar og hafa bændur brugðist vel við líkt og ávallt þegar leitað er eftir aðstoð þeirra. LK tekur undir með RML og þakkar bændum fyrir þau góðu viðbrögð og samstarf sem starfsmenn RML hafa notið við verkefnið sem er eitt ef ekki það allra mikilvægasta sem íslensk nautgriparækt hefur tekist á við frá upphafi.
Fjármagn tryggt í september
Í ágúst síðastliðnum lagði LK og BÍ til við framkvæmdanefnd búvörusamninga að ráðstafað yrði fjármunum af samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar til frekari vinnu við verkefnið um erfðamengisúrval í íslenska kúastofninum. Var samþykkt að ráðstafa 40 milljónum til verkefnisins, en það er unnið í samstarfi RML, Bændasamtaka Íslands, Landssambands kúabænda og Landbúnaðarháskóla Íslands. Þessir fjármunir tryggðu að hægt var að fara í frekari sýnatöku til stækkunar svokallaðs viðmiðunarhóps, það er stækka hann úr rétt um 8 þús. gripum í ríflega 12 þúsund gripi. Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga hafa einnig styrkt verkefnið fjárhagslega enda þarf ekki að fjölyrða um ábata þessa fyrir nautgriparæktina í heild. Þetta verkefni mun skila sér margfalt til baka í gegnum skjótari erfðaframfarir til hagsbóta fyrir greinina.