
Erfðamengisúrval: Öll tekin sýni farin til greiningar
26.03.2021
Undanfarnar vikur hafa starfsmenn RML unnið að DNA-sýnatökum úr íslenska kúastofninum vegna erfðamengisúrvals í nautgriparækt. Í þessu skyni hefur verið farið á samtals 173 bú um allt land auk Nautastöðvarinnar á Hesti. Samtals voru tekin 4.125 vefjasýni úr kúm og 106 vefjasýni úr nautum auk þess sem 63 sæðissýni fóru til greiningar. Þetta kemur fram á vef rml.is.
24. mars fór svo seinni sýnasendingin til greiningar hjá Eurofins í Danmörku, samtals 2.880 sýni. Von er á niðurstöðum greininga úr þeim innan fárra vikna og munu þær nýtast í doktorsverkefni Egils Gautasonar um þróun erfðamengisúrvals fyrir íslenska kúastofninn.
Er bændum kærlega þakkað fyrir góðar móttökur og aðstoð við söfnun sýnanna en alls staðar mættu þau áhuga og samstarfsvilja við verkið.