Beint í efni

Erfðaframfarir í íslenska kúastofninum

13.05.2009

Á fundi vinnuhóps um ræktunarmál nautgripa sem haldinn var 11. maí sl. flutti dr. Ágúst Sigurðsson, rektor Lbhí, greinargott yfirlit yfir stöðu kynbótamats í nautgriparækt; efnivið og aðferðir, eiginleika sem unnið er með og hvaða framfarir hafa orðið á undanförnum árum. Má sjá yfirlitið hér. Með nýju skýrsluhaldskerfi, Huppa.is er nú mögulegt að taka gögnin beint út úr gagnagrunnum nautgriparæktarinnar. Af því mun hljótast mikið hagræði fyrir þá sem að verkinu koma og verður mögulegt að vinna kynbótamatið mun oftar en verið hefur, t.d. ársfjórðungslega. Í grunninum eru nú upplýsingar um 330.680 gripi og er reiknað kynbótamat fyrir þá alla, fyrir alla eiginleika nema endingu. Við mat á henni er notast við feðralíkan, ekki einstaklingslíkan eins í öllum öðrum eiginleikum.

Reiknað er kynbótamat fyrir alls 49 eiginleika, en 8 af þeim vega inn í heildareinkunn, vægi er í sviga: afurðir (44%), frjósemi (8%), frumutala (8%), júgurgerð (8%), spenagerð (8%), mjaltir (8%), skap (8%) og ending (8%). Grunnurinn að núverandi kynbótamati í nautgriparækt var lagður árin 1991-2. Þá voru í ætternisskrá rúmlega 100.000 gripir, en eru nú á fjórða hundrað þúsund. Með upplýsingar um afurðir á 1. mjólkurskeiði voru í upphafi um 15 þúsund kýr, eru í dag ríflega 115.000. Svipaða sögu er að segja varðandi aðra eiginleika. Það er því ljóst að undirstöðurnar hafa styrkst mikið á þeim rúma eina og hálfa áratug sem liðinn er frá því núverandi kerfi var tekið upp.

 

En hvaða framfarir hafa orðið á undanförnum árum? Eins og sjá má í yfirliti Ágústar eru erfðaframfarirnar lang skýrastar hvað afurðirnar varðar. Frá 1970 og fram yfir miðjan níunda áratuginn er ekki mikið að gerast, en uppúr því og sérstaklega eftir 1990, þegar nýja kerfið var tekið upp, eru framfarirnar jafnar og stöðugar, um 1 kg próteins á ári, það eru ca. 0,6%. Einnig eru, hin síðari ár, greinilegar erfðaframfarir í júgur og spenagerð. Meiri sveiflur hafa orðið í próteinhlutfallinu, lengi vel var það í afturför en hefur heldur rétt úr kútnum að undanförnu. Rétt er að hafa í huga að ekki var farið að mæla prótein í mjólk fyrr en um miðjan 9. áratuginn og mjólkurmagn, sem lengi var lögð afgerandi áhersla á, og próteinhlutfall eru mjög neikvætt tengdir eiginleikar. Þá hafa einnig náðst nokkrar erfðaframfarir varðandi frumutölu, sem er nokkuð afrek þegar tekið er mið af því hversu neikvætt erfðasamhengi er milli júgurhreysti og afkastagetu. Eini eiginleikinn sem sýnist í nokkuð samfelldri afturför er frjósemi. Sköpuðust talsverðar umræður um hvernig skjóta mætti styrkari stoðum undir mat á henni, en það er nú metið sem bil á milli burða. Frjósemi er einnig með neikvætt erfðasamhengi við afkastagetu. Megin niðurstaðan er þó sú, að miðað við hversu lítill íslenski kúastofninn er, þá megi vel við una með þann árangur sem náðst hefur í ræktuninni.

 

Eftir kynninguna urðu talsverðar umræður um kynbótastarfið, framfarirnar hér m.v. það sem gengur og gerist í öðrum löndum, nýja eiginleika og endurbætur á mati þeirra eiginleika sem fyrir eru, t.d. frjósemi eins og rætt var hér að framan. Þá er greinilegt að mikill breytileiki er milli einstakra nauta varðandi vanhöld kálfa undan þeim, einnig þar sem þeir eru móðurfeður kálfanna. Það er því af nógu að taka.