Erfðabreyttur Bandarískur maís finnst í flutningaskipi í Japan
02.01.2003
Fyrirtæki í erfðavísindum víða um heim reyna um þessar mundir að koma afurðum sínum á markað með misjöfnum árangri. Mjög erfitt er að fá heimild til markaðssetningar á erfðabreyttum matvælum í Evrópu og jafnframt erfitt að fá heimild til að setja erfðabreytt hráefni í fóður búfjár. Mörg fyrirtæki reyna af þessum sökum að lauma hráefninu með öðru, sem einmitt hefur verið komið upp um í Japan. Umræddur maís er frá bandaríska fyrirtækinu StarLink og hefur þetta maís-afbrigði ekki fengið náð eftirlitsaðila þar sem grunur leikur á um að maísinn sé ofnæmisvaldandi.
Umrætt fyrirtæki, StarLink, hefur áður lent í vandræðum með erfðabreyttar afurðir, en árið 2000 komst upp um að erfðabreyttur maísinn hafði verið notaður í meira en 300 mismunandi fæðutegundir án þess að hafa tilskilin leyfi.
Fyrir útflutningsmarkaðinn í Bandaríkjunum kann þetta atvik að hafa mjög slæm áhrif, þar sem þarlendir sérfræðingar keppast um þessar mundir við að reyna að sannfæra m.a. Evrópubúa um að erfðabreytt matvæli séu fullkomlega örugg fyrir neytendur. Jafnframt er því spáð að markaðsverð á maís muni falla nokkuð í kjölfar þessa hneykslis.
Heimild: MaskinBladet Online og Agriculture Online