Beint í efni

Erfðabreyttar plöntur sækja hratt á

08.07.2010

Ef horft er til þróunar á heimsvísu í ræktun erfðabreyttra plantna, þá eykst hlutfall þeirra ár frá ári. Í ár er t.d. reiknað með því að erfðabreyttar plöntur verði ræktaðar á um 130 milljón hekturum víða um heim. Evrópusambandið hefur verið með tiltölulega harða stefnu gegn ræktun erfðabreyttra plantna, en það kann nú að breytast.

 

Þar til í ár, hefur einungis verið heimilt, innan

Evrópusambandsins, að rækta erfðabreyttan maís sem er með mótstöðu gegn skordýrum og er stærsti hluti þessara maís-akra á Spáni eða 80%. Nú hefur ESB samþykkt erfðabreytta kartöfluafbrigðið Amflora, sem eingöngu er ræktað til iðnaðarframleiðslu.

 

Áður en hægt er að markaðssetja erfðabreyttar plöntur til ræktunar þarf að fá leyfi yfirvalda og getur umsóknarferlið um leyfið tekið frá 18 mánuðum og upp í 10 ár. Í raun er enginn tímafrestur sem yfirvöld hafa til þess að fjalla um slíkar umsóknir. Nú er hinsvegar unnið að breytingum á þessu kerfi til þess að einfalda og auðvelda slíkar umsóknir. Hvort breytingarnar leiði til aukinnar framleiðslu erfðabreyttra plantna skal ósagt látið, en dagljóst er að bændur innan ESB eru í dag að missa markaðshlutdeild vegna ræktunar erfðabreyttra plantna utan sambandsins.

 

Byggt á umfjöllun Landbrugsinfo