Beint í efni

Er þín félagsaðild rétt skráð?

22.02.2017

Á næstu dögum munu Bændasamtökin senda út gíróseðla vegna félagsgjalda samtakanna fyrir árið 2017. Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá BÍ, segir að undirbúningurinn gangi vel. Töluverð vinna hefur staðið yfir við að yfirfara félagatal og aðlaga tölvukerfi í tengslum við breytingarnar og kynna þær fyrir bændum. Hægt er að yfirfara skráningar inni á Bændatorginu en frestur til þess að gera leiðréttingar á félagatalinu hefur verið framlengdur til 27. febrúar nk. 

„Vinnan við uppfærslu félagatals fyrir Bændasamtökin hefur gengið vel og bændur hafa verið virkir í því að yfirfara sína félagsaðild inni á Bændatorginu. Við höfum fengið fjölda fyrirspurna og símtala frá bændum sem eru að velta þessum málum fyrir sér,“ segir Guðbjörg. Hún segir jafnframt að margir hafi nýtt sér þann valmöguleika að senda fyrirspurn eða erindi í gegnum Bændatorgið eða með tölvupósti. „Það hefur verið ánægjulegt hversu margir bændur hafa hringt til að ráðfæra sig við starfsfólk samtakanna varðandi félagsaðildina. Við ákváðum að gefa félagsmönnum aðeins lengri frest til þess að gera leiðréttingar á sínum skráningum, eða til mánudagsins 27. febrúar. Þeir sem ekki hafa nú þegar yfirfarið sína aðild eru hvattir til þess,“ segir Guðbjörg. 

Upphæðin er 42 þúsund krónur á hvert bú
Félagsmenn fá sendan greiðsluseðil í pósti um næstu mánaðamót ásamt kynningarbréfi um félagsgjöldin. Fyrir flesta félagsmenn verður upphæðin 42.000 krónur á hvert bú. Þeir bændur sem standa fyrir minniháttar rekstri og eru með veltu undir 1,2 milljónum króna býðst að sækja um lækkun á félagsgjaldi niður í 12.000 krónur á ári. Þeir þurfa að fylla út eyðublað það að lútandi og senda til BÍ á netfangið bondi@bondi.is.

Þeir sem vilja skipta greiðslum gefst kostur á því og er bent á að hafa samband við BÍ í síma 563-0300, senda skilaboð í gegnum bændatorgið eða með tölvupósti á bondi@bondi.is. Að auki er bændum bent á upplýsingar um aðild hér inni á bondi.is.