Er innistæða fyrir hækkun kjarnfóðurverðs?
30.06.2016
Í dag tilkynnti Lífland um 4% hækkun á verði kjarnfóðurs sem taka á gildi á morgun, 1. júlí. Í tilkynningu félagsins er sérstaklega tiltekið að sojamjöl hafi hækkaði í verði að undanförnu.
Samkvæmt innflutningsskýrslum Hagstofu Íslands hafa verið flutt inn um 830 tonn af sojamjöli til fóðurgerðar það sem af er árinu; janúar-maí. CIF verðmæti þessa innflutnings er rúmlega 43 milljónir króna, eða um 52 kr/kg. Innflutningurinn skiptist þannig skv. innflutningsskýrslum:
Mánuður innflutnings | Magn, kg | Verðmæti, kr CIF | Einingaverð, kr/kg |
Janúar | 250.000 | 13.497.194 | 53,99 |
Febrúar | 200.000 | 10.665.455 | 53,33 |
Apríl | 180.000 | 9.178.074 | 50,99 |
Maí | 200.000 | 10.018.539 | 51,01 |
Alls og meðaltal | 830.000 | 43.359.262 | 52,24 |
Af framangreindum upplýsingum verður ekki annað ráðið en að verð á soja, eins og það birtist á hafnarbakkanum hér á landi, hafi heldur farið lækkandi að undanförnu, enda hefur gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum verið að styrkjast umtalsvert að undanförnu. Um síðustu áramót var gengi evru 142 kr en er í dag 137 kr, gengi dollars var 130 kr um áramót en er 123 kr í dag. Þá hefur gengi sterlingspunds gefið mjög eftir sem kunnugt er; gengi þess um síðustu áramót var 192 kr en er í dag 165 kr. Það ástand skapar vafalítið ýmis kauptækifæri þar í landi.
Samtökunum er þó kunnugt um að nokkuð umrót hafi verið á heimsmarkaðsverði á soja á allra síðustu vikum og verð hafi hækkað í júní. Að 4% hækkun á kjarnfóðurverði byggi á verðþróun á einum mánuði, er hins vegar heldur rýrt tilefni að mati LK. Nánar verður rýnt í þróun á verði helstu hráefna til kjarnfóðurgerðar næstu daga./BHB