Beint í efni

“Er hægt að versla ódýrt á Íslandi?”

07.09.2006

Fyrirtækið Hagar, sem á Hagkaup, Bónus, Aðföng, Zöru, Debenhams, Top Shop, Hýsingu, Útilíf, 10-11 og Ferskar Kjötvörur, heldur úti ágætri heimasíðu. Á henni er að finna liðinn „Frá forstjóra“ sem er „lifandi umræðuvettvangur um smásölumarkaðinn á Íslandi“. 12. nóvember 2003 voru settar inn niðurstöður verðkönnunar danska dagblaðsins Politiken um verð á 15 mjög algengum vörutegundum í 8 Evrópulöndum. Niðurstaða þeirrar könnunar var að verð var hæst í Danmörku en lægst í Svíþjóð.  

Forstjóri Haga hafði áhuga á að sjá hvernig Ísland kæmi út í könnuninni og er ekki annað að sjá en að niðurstöður séu hagfelldar fyrir landsmenn. Hann „tók bæði lægstu verð á íslenskum matvælamarkaði og einnig meðaltalsverð (verð tekin úr fleiri en einni keðju). Ekki er hægt að segja annað en að Ísland komi vel út úr þessum samanburði því úttektin sýndi að Bónus getur boðið neytendum verðlag sem er jafngott eða betra en þessi átta Evrópulönd, en Bónus kom út með lægri matarkörfu en Evrópulöndin átta gátu sýnt. Ísland kemur líka nokkuð vel út þegar meðaltalsverð eru skoðuð en miðað við það er verðlag hérlendis lægra en í Þýskalandi, Frakklandi, Noregi og Danmörku, sé miðað við þessa 15 vöruliði í þessari könnun“. Gröfin hér sýna verðlag á mjólk, osti og smjöri í þessari könnun og ekki verður um villst að forstjóri Haga hefur rétt fyrir sér, verðlag á þessum algengu neysluvörum er hagstætt hér á landi. Í mjólk og osti eru við í miðjum hóp, en smjörverð er lægst hér á landi.