Beint í efni

Er fatan eða fóstran hrein?

30.06.2012

Nú þegar hlýtt er í veðri er afar brýnt að passa vel upp á aðbúnað smákálfanna. Gömul mjólkurskán í botni drykkjaríláts og/eða þornuð mjólk á hliðum fötu er nokkuð sem ekki á að sjást í fjósum, og gerir það sem betur fer sjaldan. Þó vill þessi vinnuþáttur stundum mæta afgangi á annasömum tíma en afar brýnt er að daglega sé litið eftir með þrifunum þrátt fyrir aðrar annir.

 

Best er að hafa fasta vinnureglu varðandi þrif drykkjaríláta smákálfa og einfaldast er að tengja sápuþvott á drykkjarílátum kálfa við mjaltatækjaþvott. Mjaltatækin þarf hvort sem er að þvo tvisvar á dag (eða jafnvel oftar ef viðkomandi er með mjaltaþjón) með bursta og sápu og því hægur vandi að þvo drykkjarílát kálfanna í leiðinni. Á meðalbúi hér á landi ætti þessi vinnuþáttur vart að taka meira en 2-3 mínútur á dag.

 

Víða erlendis eru komin upp gæðaeftirlitskerfi á vegum afurðastöðva sem sérstaklega taka á þessum umgengnisþætti hjá kálfum. Sem dæmi má nefna að í gæðakerfinu Gården hjá Thise mejeri (sem framleiðir „íslenskt skyr í Danmörku“) er það þannig að séu drykkjarílát kálfanna ekki tandurhrein við úttekt, eiga bændur hreinlega á hætttu á að tankbíllinn komi ekki við í næstu ferð þó svo um óskildan þátt sé að ræða við sjálfa mjólkurframleiðsluna! Þó svo um lítið og nokkuð öfgakennt dæmi sé að ræða, sýnir þetta vel hve mikil áhersla er lögð á dagleg þrif hjá kálfum hjá þeim afurðastöðvum sem selja hágæðavöru og hafa sterka ímynd meðal neytenda.

 

Kálfafóstrum þarf sérstaklega að veita gott eftirlit og halda mögulegum vexti baktería niðri með hreinlæti og öðrum þekktum aðferðum. Þá sækja flugur eðlilega mikið í mjólkina og ef kálfafóstran er ekki útbúin með fluguvörn er voðinn vís. Einfaldasta ráðið gegn flugum er að kaupa flugnanet og verja þá staði sem eru hugsanlega aðgengilegir flugum. Slíkt flugnanet ver einnig opna staði gegn óhreinindum, svo vörnin er í raun tvíþætt.

 

Það er mjög mikilvægt að hafa þrif á kálfafóstrunni inni í daglegri vinnureglu á búinu en þrífa þarf fóstruna utanverða og gjafabásinn einu sinni til tvisvar á dag. Allir þekkja að gjafafötur kálfa á að þrífa daglega og það sama gildir um kálfafóstruna, utanverða einnig. Kerfisþvottur kálfafóstrunnar er oftar en ekki sjálfvirkur en mælt er með því að hann sé stilltur á þvott tvisvar á dag á sumrin/SS.

 

Hægt er að lesa nánar grein um umhirðu kálfafóstra hér