Beint í efni

Er eitthvað að gerast?

10.01.2017

 

Það er alltaf við hæfi á tímamótum eins og áramótunum að líta um öxl fara yfir það sem hefur fengist áorkað, hvort markmið hafi í öllu gengið eftir, hvað vantaði upp á og hvers vegna vantaði eitthvað uppá. Hvað varðar starfið hjá Landssambandi kúabænda hafa hlutirnir gengið nokkurn veginn eftir eins og stjórn stefndi að.

Fundaferð um landið
Ég og Margrét framvæmdastjóri fórum um landið í nóvember og byrjun desember, héldum 13 fundi á svæðum allra aðildarfélaga LK. Þetta voru gríðarlega skemmtilegir og fróðlegir fundir. Algerlega nauðsynlegt fyrir okkur sem bæði erum ný að fara og hitta bændur á sínum heimavelli. Það sem vakti helst athygli mína var að enginn fundana var eins þ.e. umræður sem sköpuðust á fundunum voru afar ólíkar en mjög góðar.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur núna í haust haft með höndum vinnu við reglugerðir sem tengjast búvörusamningnum en þegar samningurinn hafði verið samþykktur lá fyrir að skrifa allar reglugerðir með honum. Því verki lauk núna rétt fyrir áramótin og liggur þá loksins endanlega fyrir hvernig framkvæmd samningsins kemur til með að líta út.
Núna í upphafi desember ákvað Verðlagsnefnd búvöru að hækka mjólkurverð um 1.7% en í hlut okkar bænda kom hækkun upp á 1,44% en iðnaðurinn fékk hækkun upp á 2%. Þetta var kærkomið þar sem verðlagsgrunnur frá septembermánði hafði sýnt hækkunarþörf upp á 1,14% og skilin hafði verið eftir hækkunarþörf upp á 1,35% þegar verðlagt var 1.júlí s.l.

Þegar þessi orð eru skrifuð er það að skýrast að tekist hefur að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Það sem helst er áhyggjuefni í því er að ljóst er að Viðreisn kemur til með að fá ráðuneyti landbúnaðarmála. Ef rifjaðir eru upp frasar þingmanna Viðreisnar frá kosningabaráttunni er full ástæða fyrir þá sem byggja afkomu sína á landbúnaði að hafa áhyggjur. Í kosningabaráttunni voru, að hálfu bæði Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, boðaðar miklar kerfisbreytingar í landbúnaði á Íslandi. Það er ekki, á þessari stundu, ljóst hvað stendur í stjórnarsáttmála þessara flokka en ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með Sjálfstæðisflokkinn að hafa látið þetta mikilvæga „landsbyggðarráðuneyti“ af hendi yfir til borgarflokks, sem hefur það í yfirlýstri stefnu sinni að snúa hér öllu á hvolf.

Það er staðreynd þegar þingmannahópurinn er skoðaður að það teljast varla nema 12-15 manns til raunverulegra landsbyggðarþingmanna í honum. Þetta er grafalvarleg þróun sem hér á sér stað og gerir mjög ríka kröfu til okkar sem búum á landsbyggðinni um að spyrna duglega við fótum og verja okkar stöðu eins og mögulegt er. Það verður aðeins gert með því að vera sýnileg, halda þingmönnunum okkar við efnið og með því að uppfræða þ.e. sýna fram á hvað er að gerast í sveitum landsins. Þá komum við að kjarna málsins! Þetta verður ekki gert nema við sjálf, bændur og búalið, stöndum saman og tryggjum samtökum okkar, Bændasamtökunum og búgreinafélögunum, þann styrk sem nauðsynlegur í þeirri kjarabaráttu sem framundan er.

Það er aðeins þetta í stöðunni: Stöndum saman um þá ímyndarbaráttu sem framundan er og tryggjum það að hér verði áfram hægt að stunda öflugann landbúnað.

Hranastöðum í byrjun janúar 2017
Arnar Árnason formaður LK