Er dulinn próteinskortur eftir burð vandamál?
23.07.2010
Það er vel þekkt staðreynd að kýr, fyrstu vikurnar eftir burð, eru í neikvæðu orkujafnvægi þegar mjólkurframleiðslan eykst í raun umfram átgetu. Þá ganga kýrnar á fituforða líkamans svo mjólkina skorti ekki fitu, en það þarf fleira í mjólkina s.s. prótein. Hvernig kýrnar ná að framleiða allt það próteinmagn sem er í mjólkinni, er enn þann dag í dag lítið vitað um.
Fyrir liggur að próteinframleiðsla vegna mjólkurframleiðslu gengur á líkamann með einhverjum hætti, en ekki er þekkt í hve miklum mæli né
hvaða vefir eru brotnir niður við þessa próteinvinnslu.
Danskir vísindamenn við búvísindasvið Háskólans í Árósum vinna nú að rannsókn á þessu flókna ferli fyrst eftir burðinn. Ljóst er að amínósýrur (sem eru byggingarefni próteins) úr fóðri og frá lifur geta enganvegin fullnægt þörfum kúa fyrstu fjórar vikurnar eftir burðinn og í rannsókninni hefur komið fram að hlutfall amínósýra í blóði kúa fellur hratt eftir burð. Vísindamennirnir telja að það geti haft veruleg áhrif á getu líkamans til þess að starfa með eðlilegum hætti. Þá telja þeir sig hafa sannað að stór hluti af mikilvægustu amínósýrunum komi frá beinum en einnig frá niðurbrotsferlum þegar legið er í enduruppbyggingu eftir burðinn.
Í kjölfar þessara niðurstaðna verður næsta skref í rannsókninni að reyna að komast því hvort hægt sé að hafa áhrif á próteinstöðu kúa með því að setja próteinforðastauta í leg kúnna og með því móti gera kúnum betur mögulegt að takast á við hina kröfuhörðu mjólkurframleiðslu. Vonast vísindamenn háskólans til þess að fá loksins svör við þeim fjölmörgu spurningum sem eru þekktar í kringum vandamálakýr eftir burð. Til margra ára hefur verið talið að helstu skýringar sé að finna í neikvæðri orkustöðu kúnna, án þess að unnt hafi verið að komast fullkomlega í veg fyrir vandamálin. Ef nú tekst að sýna fram á að hluti skýringarinnar sé í raun dulinn próteinskortur eftir burð, verður vonandi hægt að finna aðrar lausnir sem betur henta til þess að koma í veg fyrir alvarleg veikindi kúa.