Beint í efni

Enn stækkar Arla

11.07.2011

Arla Foods, sem lesendur naut.is þekkja orðið og er samvinnufélag kúabænda í afurðavinnslu í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, hefur á liðnum misserum verið í örum vexti. Síðasta stækkun Arla Foods var yfirtaka á þýsku afurðastöðinni Hansa-Milch nú í vor þegar í hóp hinna sænsku og dönsku kúabænda bættust 1.200 þýskir kúabændur.

 

Nú stefna þeir á að stækka enn frekar og hafa gert bændunum sem eiga afurðastöðina Allgäuland-Käsereien tilboð um að sameinast við Arla Foods. Allgäuland-Käsereien, sem er í Suður-Þýskalandi, hefur átt undir högg að sækja á hinum stóra evrópska markaði og verið í erfiðleikum. Af þeim sökum leitaði stjórn félagsins til Arla Foods sem bestu leiðina til framtíðar fyrir sína umbjóðendur. Með því að efla starfsemi sína í Suður-Þýskalandi er stjórn Arla Foods eingöngu að fylgja fyrirfram ákveðinni stefnu félagsins en markmiðið er að verða eitt af stærstu afurðafélögunum í Þýskalandi.

 

Ef af samrunanum verður bætast í hóp hinna 1.200 þýsku kúabænda innan Arla, 1.800 kúabændur frá Allgäuland-Käsereien. Þessir bændur hafa verið að framleiða um 450 milljón kg. mjólkur árlega og lagt þau inn í fjórar afurðastöðvar þar sem eru um 300 starfsmenn. Allgäuland-Käsereien hefur á liðnum árum aðallega verið í osta- og smjörframleiðslu en einnig að nokkru leiti í ferskvöru. Velta Allgäuland-Käsereien á síðasta ári var 253 milljónir Evra, þar af komu 31% frá útflutningi/SS.

 

Hægt er að fræðasta nánar um Allgäuland-Käsereien hér: www.allgaeuland.de