Enn samdráttur í kjötsölunni
12.08.2011
Bændasamtökin hafa nú tekið saman nýjar framleiðslu- og sölutölur fyrir júlí. Í samantektinni kemur fram að sala á nautakjöti var 7,2% minni en hún var á sama tíma í fyrra og að ársfjórðungssalan hafi verið 5,4% minni. Þetta hefur jafnframt leitt til þess að árssalan, þ.e. salan sl. 12 mánuði, er nú 1,7% minni en 12 mánuðina þar á undan.
Á sama tíma og samdráttur hefur orðið í sölu á innlendu nautakjöti hefur innflutningur nautakjöts aukist verulega frá fyrra ári, en fyrstu sex mánuði þessa árs nam innflutningurinn 132 tonnum en á sama tímabili árið 2010 nam innflutningurinn 42 tonnum. Innflutningur nautakjöts hefur því aukist um 314% á milli ára. Allt árið 2010 nam innflutningur nautgripakjöts 100,5 tonnum og árið 2009 143,5 tonnum.
Heildarframleiðslan sl. 12 mánuði var 3.760 tonn af 26.567 tonna framleiðslu kjöts í það heila og er hlutdeild nautakjötsins því 14,2% í framleiðslunni. Alls nam sala nautgripakjöts í mánuðinum 274 tonnum og sl. 12 mánuði 3.768 tonnum. Horft til sundurliðunar á sölu nautgripakjöts í mánuðinum var sem fyrr mest sala í ungnautakjöti eða 170 tonn og á 12 mánaða grunni nemur ungnautakjötssalan 2.149 tonnum eða 57,0% af heildarsölunni. Sala á kýrkjöti á ársgrunni nam 1.341 tonnum eða sem nemur 35,6% af heildarsölunni.
Sé litið til annarra kjöttegunda kemur í ljós að heildarsalan hefur dregist saman sl. 12 mánuði um 4,1% og sýnir engin kjöttegund söluaukningu frá fyrra ári – annan mánuðinn í röð. Enn er mest sala á alífuglakjöti á landsvísu eða 6.854 tonn (29,6%) en þar á eftir kemur kindakjöt með 6.028 tonn (26,0%) og þá svínakjöt með 6.023 tonn (26,0%) eða einungis 5 tonnum minna en kindakjötið/SS.