Beint í efni

Enn handmjólkað í einu fjósi hérlendis

16.09.2003

Landssamband kúabænda hefur tekið saman upplýsingar um fjósgerðir hérlendis nú í byrjun verðlagsársins. Skráin er unnin upp úr gögnum Bændasamtaka Íslands og upplýsingum frá Búnaðarsamböndum og Héraðsdýralæknum landsins. Frumniðurstöður sýna að fjós hérlendis eru nú 869 talsins og þar af eru hefðbundin básafjós 635 eða 73,1%. Athyglivert er að enn er handmjólkað í einu fjósi og í 18 fjósum er mjólkað með fötumjaltakerfi. 

Básafjós með mjaltabás eru nú 114 alls eða 13,1%, en lausagöngufjós eru 120 eða 13,8%. Lausagöngufjósin skiptast þannig að 118 þeirra eru legubásafjós, þar af 11 með mjaltaþjónum, 1 rimlafjós og 1 hálmfjós. Nánari greining á gögnunum er í vinnslu.