Beint í efni

Enn hækkar verðið hjá Arla Foods

11.09.2007

Dansk-sænski mjólkuriðnaðarrisinn Arla Foods hefur tekið ákvörðun um að hækka verðið til bænda um 30,6 danska aura (3,67 ISK) pr. kg mjólkur frá og með 24. september n.k. Síðan 7. ágúst sl. hefur fyrirtækið hækkað verð til bænda um 6,41 ISK á kg. eða sem nemur 25%. Stjórn þess gefur til kynna að frekari hækkana sé að vænta í vetur.

Með árstíðarálagi (3,24 ISK) verður mjólkurverðið eftir þetta 34,97 ISK.

 

Arla Foods er samvinnufélag um mjólkurvinnslu í eigu ríflega 9.000 kúabænda í Danmörku og Svíþjóð. Hjá því starfa tæplega 18.000 manns og það vinnur úr 8,5 milljörðum lítra mjólkur árlega í Danmörku, Svíþjóð og Englandi. Velta fyrirtækisins árið 2006 var 546 milljarðar króna.