Beint í efni

Enn hækkar heimsmarkaðsverðið

18.09.2015

Á þriðjudaginn var haldið uppboð á mjólkurvörum á uppboðsmarkaðinum GDT (Global Dairy Trade) og hækkaði verð mjólkurvara nú í þriðja skipti í röð og að þessu sinni um 16.5% frá síðasta uppboði. Þetta eru klárlega góð tíðindi enn á ný og gefur einhverjar vonir um að afurðaverð til kúabænda víða um heim geti nú farið að hækka á ný. Mest verðhækkun varð á mjólkurdufti eða um 20,6% en undanrennuduft hækkaði einnig vel eða um 17%.

 

Einu neikvæðu tíðindin af uppboðinu voru þó að heldur minna var selt á markaðinum en oft áður, en skýringin felst m.a. í því að mörg afurðafélög halda að sér höndum og bjóða minna magn til sölu nú til þess að reyna að toga verðið upp á við. Stór hluti þess magn sem selt var fór til kínverskra kaupenda en í Kína er innflutningskvóti á mjólkurvörur og virðist sem að kaupendur þaðan séu nú að reyna að fylla upp í kaupheimildir sínar á þessu ári. Næsti uppboðsmarkaður verður haldinn 6. október nk./SS