
Enn hækka verðskrár nautakjöts
24.05.2022
Norðlenska tilkynnti í lok síðustu viku um hækkun á verðskrám sínum á nautakjöti, en hækkunin tók gildi 23. maí 2022. Er þetta í annað skipti á þessu ári sem Norðlenska hækkar sínar verðskrá en síðasta hækkun tók gildi 1. apríl sl. Heldur hér áfram sú þróun sem verið hefur undanfarna mánuði hjá flestum afurðarstöðvum, að hækka bestu flokkana og láta lakari flokkana sitja eftir eða standa í stað.
O flokkarnir og betri í báðum yfir 200 kg. flokkum hækka í kringum 5% hjá Norðlenska að þessu sinni. Undir 200 kg. standa í stað og p og p- lækka fyrir báða flokka yfir 200 kg. Stóra fréttin er kannski sú að U flokkur yfir 250 kg. er kominn yfir 1.000.- króna markið en sú tala hefur ekki áður sést síðan EUROP matið var tekið upp árið 2018.
Ungkýr (KU) hækka einnig örlítið, eða í kringum 2% allir flokkar. Á móti lækkar Kýr flokkurinn (K) um 2% c.a. heilt yfir.
Naut (N) lækka einnig eða á bilinu -1% til -3%. Verð fyrir Alikálfa og ungkálfa helst óbreytt.
Með þessu halda verðskrárhækkanir áfram sem hófust undir árslok í fyrra. Norðlenska sem dæmi hefur með þessari breytingu hækkað UN verðskrá sína um allt að rúmlega 20% í betri flokkunum frá því í nóvember í fyrra. Það er því ljóst að afurðarstöðvarnar eru að bregðast nokkuð hratt við versnandi afkomu nautgripabænda. Slíkt er vitanlega afar jákvætt, en þessar hækkanir koma í kjölfar gríðarlegra aðfangahækkana. Það má því vera ljóst að afkoma bænda er ekki að batna, þrátt fyrir að þessar hækkanir vegi vissulega á móti áðurnefndum aðfangahækkunum.
Verðskráin á netinu hefur verið uppfærð hér