Enn er svindlað með kjöt
19.11.2015
Ný skýrsla frá Evrópusambandinu, sem heitir „Close-up on the meat we eat – Consumer want honest labels“, sýnir að enn er verið að svindla með kjöt í unnum vörum en flestir muna væntanlega vel eftir hrossakjötsmálinu svokallaða. Í ljós hefur komið að ótal framleiðendur eru enn að reyna að blekkja neytendur og merkja ranglega rétti sína.
Þannig komast skýrsluhöfundar að því að á markaðinum eru í sölu tilbúnir réttir þar sem gefið er upp rangt hlutfall kjötinnihaldsins og þarf vart að taka fram að þar er þá verið að ýkja verulega hlutdeild kjötsins af heildarþyngd vörunnar. Þá nota sumir sérstök efni til þess að láta kjötið líta út fyrir að vera ferskara en það í rauninni er og enn aðrir selja kjúkling sem smákálfakjöt í skyndibita svo eitthvað sé talið til. Þá er vatni oft bætt út í vöruna og/eða sprautað í kjöt án þess að það sé sérstaklega tekið fram. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt enda geta neytendur alls ekki áttað sig á þessu í tilbúnum réttum og verða að geta treyst á innihaldslýsingar. Í kjölfar skýrslunnar hafa nú verið settar enn á ný hertar reglur í þeim tilgangi að ná að koma í veg fyrir svindl/SS.