Enn eflist Fonterra í Kína
08.11.2012
Fonterra heldur áfram að stækka framleiðslu sína á mjólk í Kína en félagið rekur nú þegar 3 stór kúabú í Hebei héraðinu og við höfum áður greint frá. Nú hefur verið gerður samningur um 2 bú til viðbótar í sama héraði og munu þessi 5 kúabú alls framleiða 150 milljónir lítra á ári! Bú þessi eru afar vel staðsett, um 120 kílómetra austur af Beijing. Á hverju þeirra eru 3.350 kýr, 50 kúa hringekjubásar og öll helsta aðstaða fyrir kýrnar. Sameiginlega eru svo búin tvö með fóðurstöð, starfsmannaaðstöðu ofl.
Að sögn talsmanna Fonterra er félagið þó hvergi nærri hætt að fjárfesta í Kína enda mun mjólkurneyslan aukast þar um helming á næstu 8 árum samkvæmt spám Fonterra. Félagið stefnir fast að því að árið 2020 muni framleiðsla þess í Kína vera allt að 1 milljarði lítra.