Beint í efni

Enn byggir Fonterra

29.10.2014

Fonterra í Nýja-Sjálandi starfrækir í dag stærstu afurðastöð í heimi í duftframleiðslu í Darfield og er framleiðslugeta stöðvarinnar hreint ótrúlega eða um 700 tonn af mjólkurdufti daglega í tveimur vinnsluturnum. Þó svo að þetta virðist nú vera meira en nóg, þá er mjólkurframleiðsla landsins svo ört vaxandi að nú hefur Fonterra gert samning við GEA, sem m.a. framleiðir mjaltatæki en einnig búnað fyrir afurðastöðvar, um að koma upp nýrri þurrkstöð í bænum Lichfield.

 

Hinn nýji þurrkari mun einn og sér framleiða jafn mikið og hinir tveir í Darfield eða 700 tonn daglega. Þurrkarinn, sem verður sá lang stærsti í heiminum, verður tekinn í notkun árið 2016 og er áætlaður kostnaður við framkvæmdina tæplega 14 milljarðar króna. Í dag er Fonterra leiðandi á mjólkurduftmarkaðinum í heiminum með um 40% markaðshlutdeild, væntanlega mun þessi nýja framleiðsluaðstaða þeirra styrkja félagið enn frekar í valdabaráttu afurðastöðvanna í heiminum/SS.