Beint í efni

Enn af vægi búvara í útgjöldum heimilanna

16.11.2011

Í nýrri skýrslu um hugsanleg áhrif ESB-aðildar á íslenskan landbúnað kemur fram að verð til bænda myndi lækka svo nemur allt að tugum prósenta í einstaka afurðategundum verði tollar afnumdir á búvörum frá ESB-löndum. Þetta er svipuð niðurstaða og varð í Finnlandi við aðild að ESB, þó nokkru muni á áhrifum á einstakar búgreinar. Áhrif á matvöruverð til neytenda í Finnlandi voru 11% verðlækkun. Hafa ber í huga að í Finnlandi voru lagðir tollar á mun fleiri tegundir búvara fyrir aðild að ESB eins og t.d. kornvörur, sykur og grænmeti þar sem þær voru og eru framleiddar þar í landi. Einnig er vikið að því í skýrslunni að markaðsstyrkur smásölunnar hafi aukist í Finnlandi við aðild landsins að ESB og lægra hlutfall af útsöluverði búvara komi nú í hlut bænda en áður var.

15% útgjalda vegna mat- og drykkjarvöru
Ef litið er á útgjöld heimilanna hér á landi til matvörukaupa árið 2010 sést að 15% þeirra eru vegna kaupa á mat- og drykkjarvörum. Þar af eru 2,6% til kaupa á brauði og brauðvörum, 1% vegna ávaxta og 5,1% í aðrar mat- og drykkjarvörur (þ.m.t. sykur, súkkulaði, gosdrykkir og ávaxtasafar) sem ESB-aðild mynd ekki breyta neinu um hvað tolla eða aðrar álögur varðar. Þá standa eftir kjöt og kjötvörur sem nema 2,7% af útgjöldum heimilanna, mjólk, ostar og egg 2,4% og grænmeti, kartöflur o.fl. 1,2%. Síðasttaldi liðurinn er reyndar þegar að stærstum hluta án tolla og innlend framleiðsla t.d. á tómötum og gúrkum í beinni samkeppni við innfluttar vörur.

11% verðlækkun á búvörum þýðir einungis 0,5% lægri útgjöld heimila
Um það bil 5% af útgjöldum heimilanna fara til kaupa á búvörum sem tollar eru lagðir á við innflutning. Ef verðlækkun þessara vara yrði 11% við aðild að ESB myndi það lækka útgjöld heimilanna um 0,5%. Með 30% lækkun þessara vara, sem verður að telja víðs fjarri því sem raunhæft má telja, yrði lækkun útgjalda 1,5%.

Nefna má að útgjöld vegna póst- og símakostnaðar eru álíka mikil og til kjöt- og grænmetiskaupa samtals (3,8% á móti 3,9% árið 2010). Útgjöld vegna ferða og flutninga vega viðlíka þungt og matvöruliðurinn (án drykkjarvöru) í heild sinni.

Tollalækkun hefði ekki mikil áhrif á útgjöld íslenskra heimila
Af þessu má ráða að þótt allir tollar á búvörur frá ESB-löndum myndu falla niður við aðild Íslands að sambandinu er ekki hægt að búast við miklum áhrifum á útgjöld íslenskra heimila. Í áðurnefndri skýrslu er einmitt vikið að því að brauð og brauðvörur eru mun ódýrari í ESB en hér á landi og er munurinn síst minni en á öðrum matvörum þótt ekki séu lagðir tollar á hráefni til brauðgerðar eða aðrar innfluttar kornvörur. Til að ná 1,5% lækkun á útgjöldum heimilanna þyrfti að koma til 30% lækkun á verði mjólkurafurða og kjötvara, sem í allri sanngirni verður að teljast langt fjarri lagi. Er það virkilega þess virði að setja íslenskan landbúnað, hundruðir starfa og matvælaframleiðslu í landinu í uppnám fyrir svo lágar upphæðir? Starfsemi sem þar að auki spilar stórt hlutverk sem aðdráttarafl landsbyggðarinnar fyrir ferðamenn og tengist náið atvinnugrein sem skilar þriðjungi gjaldeyristekna þjóðarbúsins.

/Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur BÍ