Beint í efni

Enginn vill gefa upp verð á rúlluplasti

01.04.2008

Eftir snarpa verðhækkun á áburði og öðrum aðföngum velta bændur því nú fyrir sér hvað rúlluplastið muni kosta í vor. Plastnotkun á meðalstóru búi er allnokkur og ekki fráleitt að ætla að útgjöld til plastkaupa séu á bilinu 200-500 þúsund án vsk. hjá bændum. Rúlluplast er m.a. unnið úr olíu og verðhækkanir á henni gefa fyrirheit um hærra verð á plasti.

Bændablaðið hafði samband við fjölda söluaðila á rúlluplasti og ræddi við þá um verðlagsmál og einnig hvaða plast þeir hefðu á boðstólum í vor.

Gengismálin leika menn grátt
Enginn söluaðili á rúlluplasti er tilbúinn að gefa upp verð þegar þetta er skrifað. Ástæðan er einkum mikið gengissig íslensku krónunnar og sá órói sem fylgir flökti hennar. Innflutningsaðilar eru ragir við að greiða fyrir pantanir og þeir bera því fyrir sig að óvissan sé mikil þar sem vörurnar geti jafnvel hækkað í hafi um mörg prósentustig. Í samtölum við söluaðila kom fram að hækkun hjá framleiðendum sé á bilinu 15-20% á milli ára. Einn aðili taldi engar breytingar verða á verði erlendis og því væri gengisbreyting krónunnar eina óvissuatriðið.

Eldri birgðir að klárast
Sumir innflutningsaðilar eru enn að selja gamlar birgðir frá því í fyrra en að sögn þeirra er lítið eftir. Dæmi eru um að verð á hefðbundinni 75 cm rúllu sé kr. 6.100-7.200 án vsk. en innifalið í því verði er gamla úrvinnslugjaldið sem ekki fæst endurgreitt.

Úrvinnslugjald lækkað
Um síðustu áramót var úrvinnslugjaldið lækkað úr 25 krónum á hvert kg niður í 3 krónur á hvert kg. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði vegna meðhöndlunar og endurnýtingu eftir að plastið hefur þjónað upphaflegum tilgangi sínum. Lækkunin þýðir að á hefðbundinni 75 cm plastrúllu sem er 27 kg á þyngd verður gjaldið 594 krónum lægra en í fyrra. Þetta á að skila sér strax sem lækkun á útsöluverði. Söluaðilar hafa hins vegar gefið í skyn að hækkanir erlendis frá þurrki út þessa breytingu.

Innflutningur á bilinu 1.600 – 1.800 tonn
Heildarinnflutningur á rúlluplasti er talinn nema á bilinu 1.600 – 1.800 tonn á ári hverju. Verðmæti markaðarins í fyrra má áætla á bilinu 390-510 milljónir króna en þá var algengt verð á einni rúllu af rúlluplasti kr. 6.600-7.700 án vsk. Úrvinnslugjaldið eitt og sér nemur nú á bilinu 4,8-5,4 milljónum króna sé miðað við 3 krónur af hverju kg. Ljóst er af magninu að dæma að eftir nokkru er að slægjast hjá söluaðilum. Áætla má að plastrúllur, sem eru seldar hérlendis á hverju ári, séu á bilinu 60-66 þúsund og dugi til þess að fylla 67 fjörutíu feta gáma.

Mun plastnotkun breytast?
Í búrekstrinum almennt velta bændur því nú fyrir sér hvar sé hægt að spara og e.t.v. breyta hefðbundnum aðferðum. Ráðunautar hafa slegið á að kostnaður vegna plastkaupa við framleiðslu á hverjum mjólkurlítra sé 1,7 kr. og í kindakjötinu nemi kostnaðurinn rúmum 12 kr. á kg. Áætlað plastverð á hverja heyrúllu er um 330 kr. ef gert er ráð fyrir að hvert plastkefli dugi á 22 rúllur (rúllur eru þó misjafnar að stærð). Verkun á heyi í rúllubagga er enn langalgengasta aðferð við geymslu á heyforða þó aðrar aðferðir sæki í sig veðrið eins og verkun í flatgryfjur og stæður. Þeir aðilar sem Bændablaðið ræddi við segja þó langt í land að plastið hörfi. Það sé hins vegar mikil þróun hjá plastframleiðendum sem muni skila sér í lægra verði til bænda. T.d. er nú verið að þróa þynnra plast og alltaf er verið að bæta teygjuefni og slitþol plastsins. Heildsalinn Plastcó hefur boðað nýja tegund sem hafi um 33% betri nýtingu en hefðbundna plastið sem íslenskir bændur þekkja. Rúllurnar eru 2.000 metrar (gömlu eru flestar 1.500 m) og plastið þynnra en áður hefur sést. Verðið er hærra en á gömlu rúllunum en sölumenn fullyrða að bændur geti náð fram rúmlega 20% sparnaði noti þeir nýja plastið.

Margir söluaðilar og fjöldi tegunda í boði
Eins og fyrr segir eru margir aðilar sem bjóða upp á plast á þessu ári og sumir þeirra eru með stórt net sölumanna um allt land. Tegundirnar eru jafnframt margar en sumar hverjar fengnar hjá einum innflutningsaðila. Að sögn ráðunautar sem Bændablaðið talaði við hafa bændur rætt það að taka sig saman og óska eftir tilboðum frá söluaðilum. Af því hefur þó ekki orðið en ástæðan er talin vera mikil samkeppni og góð kjör sem bændum hafi boðist til þessa.

Bændablaðið mun halda áfram að fylgjast með verðlagsþróun á rúlluplasti og birta verð frá söluaðilum þegar það liggur fyrir. Í meðfylgjandi töflu má sjá söluaðila á rúlluplasti og hvaða plasttegundir verða í boði í vor. /TB

Söluaðilar

Plasttegund

Breidd

Litur

Verð

Búaðföng

PolyBale

50 og 75 cm

Hvítt, grænt og svart

Ekki vitað

Búvís

Rani

50 og 75 cm

Hvítt og ljósgrænt

Ekki vitað

Fóðurblandan

Trio- og Duoplast, Tenospin

50 og 75 cm

Hvítt og ljósgrænt

Ekki vitað

Frjó

Bal'ensil

50 og 75 cm

Hvítt og dökkgrænt

Ekki vitað

Lífland

PolyBale

50 og 75 cm

Hvítt, grænt og svart

Ekki vitað

Plastcó (heildsala)

Triowrap, Teno Spin, Trioplus

50 og 75 cm

Hvítt, svart, ljós- og dökkgrænt

Ekki vitað

Sláturfélag Suðurlands

Teno Spin, PrexStreem

50, 73 og 75 cm

Hvítt, ljósgrænt, svart, dökkgrænt

Ekki vitað

Vélaborg

John Deere

50 og 75 cm

Hvítt, ljósgrænt og svart.

Ekki vitað

Vélar og þjónusta

Silograss, Supergrass

50 og 75 cm

Hvítt og ljósgrænt

Ekki vitað

Vélaver

Silotite

50 og 75 cm

Hvítt og ljósgrænt

Ekki vitað

Þór

Rani

50 og 75 cm

Hvítt og ljósgrænt

Ekki vitað


 

 

 

 

 

 

 

/Birt í Bændablaðinu 1. apríl 2008.