Beint í efni

Endurskoðun búvörusamninga lokið

17.01.2024

Á fundi samninganefnda þann 14. janúar sl. var komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði lengra komist í samtali um endurskoðun búvörusamninga.
Strax frá upphafi var það afdráttarlaus afstaða samninganefndar ríkisins að ekki kæmi til greina að setja aukna fjármuni inn í samningana.

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður við samninganefnd ríkisins um endurskoðun gildandi búvörusamninga sem gilda til ársloka 2026, en ráðgert var að endurskoðun færi fram tvisvar á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Þrátt fyrir að í búvörulögum liggi fyrir heimild til þess að mæla fyrir um endurskoðun á samningstímanum þar sem metin eru áhrif og þróun samkvæmt samningi, hefur samninganefnd ríkisins ítrekað bent á að ekki verður bætt inn í búvörusamninga nýju fjármagni.

Viðræður um endurskoðun búvörusamninga hófust í lok mars á síðasta ári. Við upphaf ársins 2023 höfðu Bændasamtökin lagt fram greiningu sína um stöðumat íslensks landbúnaðar þar sem fram kom að flestar búgreinar stæðu frammi fyrir miklum áskorunum í sínum rekstri og að hluti þeirra byggi við afkomubrest. Hækkanir aðfanga í landbúnaði frá árinu 2021 höfðu ekki gengið til baka, og að auki hafði fjármagns- og launakostnaður hækkað verulega. Að teknu tilliti til þróunar á kostnaði, afurðaverði og fjármagnskostnaði á liðnu ári var það mat Bændasamtakanna að þörf væri á um 12 milljörðum króna inn í greinina til þess að bregðast við alvarlegri stöðu.
Bændasamtökin kynntu stöðumat íslensks landbúnaðar fyrir atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd á vordögum síðasta árs þar sem fjármálaáætlun 2024-2028 var til umræðu, en þar hafði ráðherra ekki lagt til að auka fjármagn í samningana. Litlar undirtektir voru því við fjárhagslegum vanda greinarinnar og engar tillögur voru lagðar fram til að bregðast við stöðunni af stjórnvöldum, þrátt fyrir loforðaflaum stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar um eflingu íslensks landbúnaðar.
Viðræður við samninganefnd ríkisins héldu áfram þar sem farið var yfir alla samningana en hlé var gert á viðræðum eftir 8. júní 2023. Á fundarröð sinni um landið í ágúst 2023, kynntu Bændasamtökin stöðumat íslensks landbúnaðar fyrir bændum.

Kröfugerð Bændasamtakanna vegna endurskoðunar búvörusamninga var lögð fram á samningafundi þann 28. september 2023.
Engin viðbrögð komu fram um kröfugerð Bændasamtakanna fyrr en ríkisstjórn Íslands ákvað að koma á fót starfshópi ráðuneytisstjóra þriggja ráðuneyta. Starfshópurinn samanstóð af ráðuneytisstjórum úr matvæla-, innviða- og fjármála- og efnahagsráðuneytunum. Hópnum var ætlað að leggja mat á þá stöðu sem upp væri komin í landbúnaði í kjölfar endurtekinna hækkana á stýrivöxtum og verðhækkana á aðföngum og leggja til tillögur með hliðsjón af þeim gögnum sem væri safnað.
Starfshópurinn skilaði af sér þann 4. desember 2023, en þá hafði verið gert hlé á viðræðum um endurskoðun búvörusamninga vegna vinnu hópsins. Í öllum grundvallaratriðum var niðurstaða starfshóps ráðuneytisstjóra í samræmi við greiningar Bændasamtakanna frá því í byrjun ársins og komu stjórnvöld fram með 2.100 milljóna króna viðbótarfjármagn til bænda. Skipting þessara fjármuna var ekki borin undir samninganefnd bænda og voru stórir hópar bænda sem ekki nutu þessarar einskiptis aðgerðar. Lýsti stjórn Bændasamtakanna bæði vonbrigðum og áhyggjum vegna þessarar niðurstöðu.

Samninganefnd Bændasamtakanna lagði ætíð upp með að við endurskoðun búvörusamninga yrði komið til móts við stöðuna sem uppi væri til að tryggja framtíðina. Endurskoðunin þyrfti að vera í samræmi við stjórnarsáttmála, gefin loforð ríkisstjórnarinnar, og endurspegla stöðu landbúnaðarins til skemmri og lengri tíma og að fylgja markmiðum þjóðaröryggisstefnu, ásamt m.a. landbúnaðar- og matvælastefnum stjórnvalda.

Það er skýr afstaða stjórnar Bændasamtaka Íslands að mikill áfangi hefur náðst því nú hafi stjórnvöld áttað sig á stöðunni og viðurkennt vandann sem atvinnugreinin stendur frammi fyrir. Aftur á móti liggur fyrir að viðbrögð stjórnvalda síðustu tveggja ára hafa ekki verið til þess fallin að snerta með fullnægjandi hætti á grafalvarlegri stöðu greinarinnar.
Það er álit Bændasamtakanna að samkvæmt lögum sé það skýrt að bæði eigi innlend landbúnaðarframleiðsla að anna innanlandsmarkaði auk þess sem afkoma þeirra sem landbúnað stunda eigi að vera í eðlilegu samræmi við kjör annarra stétta.
Samstaða bænda hefur skilað umtalsverðum árangri við að fá betri almennan skilning stjórnvalda á stöðu greinarinnar. Jafnframt hefur samstaðan og greiningar samtakanna leitt af sér vitundarvakningu í samfélaginu um að bændur geti ekki unnið nær launalaust.
Bændum ber að standa vörð um fæðuframboð landsins. Það er álit samtakanna að viðbótarfjármagn sem kom frá ráðuneytisstjórahópnum og viðbótarfjármagn í formi sprettgreiðslna á árinu 2022 dugi ekki til að mæta þeim hækkunum sem dunið hafa á greininni og bændum. Ákall bænda um kjaraleiðréttingu hefur aðeins byggt á þeim skyldum sem stjórnvöld hafa sjálf sett með lögum.
Nú þurfi að treysta stoðirnar til framtíðar og tryggja stöðu bænda, afkomu þeirra og fyrirsjáanleika í starfsumhverfi atvinnugreinarinnar. Landbúnaður hefur það mikilvæga hlutverk að tryggja fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Án íslensks landbúnaðar mun þjóðin glata einu því besta sem í henni er og ef bændur verða ekki lengur til staðar eða þeim mun fækka svo um munar að þá höfum við glatað hlutverki okkar sem sjálfstæð þjóð.

Í samninganefnd fyrir hönd bænda sátu Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda BÍ, Rafn Bergsson, formaður deildar nautgripabænda BÍ og Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda BÍ.