Endalok Toystory
24.01.2015
Bandaríski ofurbolinn Toystory er etv. ekki mörgum íslenskum kúabændum kunnugur, en Toystory var af Holstein kyni og í algjörum sérflokki beggja vegna Atlandshafsins. Hann fór á vit hinnar sígrænu töðu í nóvember sl., en þá var hann búinn að skila frá sér sæði sem nýttist í alls 2,4 milljónir stráa! Um einstakt met er að ræða enda er næsta naut á eftir honum með 1 milljón færri seld strá. Alls er talið að dætur hans séu nú um 500.000 og í amk. 50 löndum.
5. apríl 2012 náði Toystory þeim einstaka árangri að búið var að útbúa 2 milljónir stráa með sæði frá honum
Fljótlega eftir að kúabændur landsins fóru að nota sæðið í ræktun sinni komu miklir kostir Toystory í ljós, en hans aðalsmerki var óhemju góð frjósemi, léttir burðir og góð ending dætranna
Toystory fæddist sjöunda maí árið 2001 á kúabúinu Mystery Valley Dairy í fylkinu Wisconsin, hvar Mitch nokkur Breunigs býr. Nautið hlaut þar nafnið Toystory þar sem sú þekkta kvikmynd Disney var í miklu uppáhaldi hjá dóttur Mitch. Toystory þótti strax bera af og var seldur, sex mánaða gamall, á kynbótastöð Geenex Cooperative fyrir 4.000 dollara eða fyrir um 650.000 krónur. Það kann að hljóma sem há upphæð en þá er nú rétt að hafa í huga að veltan af sölu á sæðinu frá Toystory er talin hafa numið um 60 milljónum dollara. Á gengi dagsins í dag eru það um 7,5 milljarðar króna eða um 3.125 krónur á stráið/SS.