Beint í efni

Elsta framleiðendasamvinnufélag heims í þrot

01.07.2017

Danska afurðafélagið Endrup, sem er elsta samvinnufélag heimsins í mjólkurvinnslu, er nú komið á leiðarenda en í gær hættu allir innleggjendur félagsins að leggja inn mjólk þar. Ástæðan er sú að félagið hefur átt í verulegum fjárhagserfiðleikum undanfarin ár og er nú komið í greiðsluþrot. Þetta annars sögufræga félag hóf starfsemi sína árið 1884 og hefur starfað síðan í fjölbreyttri framleiðslu mjólkurvara. Síðustu árin hefur Endrup fyrst og fremst framleitt svokallaða harða osta.

Síðustu árin hafa 10 kúabú staðið að félaginu og hefur það haft úr 20 milljónum lítra að vinna á ári hverju. Flest þessara kúabúa sóttu um aðild að Arla í gær, en þá rann einnig út frestur til þess að ganga í Arla án þess að greiða sérstakt inngöngugjald. Frá og með deginum í dag þurfa kúabændur sem ætla að ganga í Arla óháð í hvaða landi þeir eru, en kúabændurnir sem eiga Arla eru frá 7 mismunandi löndum, að greiða all hátt óafturkræft félagsgjald. Inntökugjaldið var áður 230 þúsund íslenskar krónur en verður nú 7,5 evrusent á hvert innvegið kíló fyrsta árið eða sem nemur 8,7 krónum/kg. Hefðu þessi kúabú sem áður lögðu inn hjá Endrup ákveðið að sækja um aðild að Arla í dag, hefði hvert þeirra þurft að greiða 17,4 milljónir að jafnaði í inntökugjald og munar víst um minna/SS.