Ellefti Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn 2010
27.04.2011
Úrslit í teiknisamkeppni barna í 4. bekk grunnskólanna
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tilkynnti fyrir skömmu úrslit í teiknisamkeppni Alþjóðalega skólamjólkurdagsins, sem haldinn er hátíðlegur síðasta miðvikudag í september ár hvert.
Eins og undanfarin ár barst mikill fjöldi teikninga í samkeppnina sem Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins stendur að hér á landi. Að sögn Guðnýjar Steinsdóttur, markaðsstjóra MS, var þátttakan í keppninni nú svipuð og undanfarin ár og bárust um 1300 teikningar frá 60 skólum alls staðar að af landinu. Tíu nemendum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar að loknu vali á úrtaki mynda sem lagt var fyrir menntamálaráðherra, sem jafnframt er formaður dómnefndar.
Markmið keppninnar er að vekja athygli á mikilvægu hlutverki mjólkur í daglegu mataræði barna. Neysla mjólkur hefur aukist í grunnskólum á undanförnum árum, sem m.a. má rekja til mjólkurkælivéla sem víða hafa verið settar upp í skólunum.
Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn er haldinn að undirlagi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Að því tilefni, sem fyrr segir, fer árlega fram hér á landi teiknisamkeppni meðal nemanda í fjórða bekk í grunnskólum landsins. Eru verðlaunateikningarnar notaðar á veggspjöld og annað kynningarefni vegna Skólamjólkurdagsins sem fram fer í september ár hvert.
Vinningshafarnir að þessu sinni eru:
Sólveig Blær Björnsdóttir Austurbæjarskóla
Þórunn Elísa Þórisdóttir Hvassaleitisskóla
Vladislav Krasovsky Fellaskóla
Hilmar Albertsson Húsaskóla
Logi Gunnarsson Smáraskóla
Hildur Björg Jónsdóttir Hofstaðaskóla
Kristinn Ingi Kristjánsson Gerðaskóla
Sigmar Marijón Friðriksson Gerðaskóla
Álfheiður Agla Oddbjörnsdóttir Grunnskóla Fjallabyggðar
Þorbjörg Una Hafsteinsdóttir Glerárskóla
Hver verðlaunahafanna fær 25 þúsund krónur, sem renna óskiptar í bekkjarsjóð viðkomandi. Vinningsteikningarnar má svo skoða á vefslóðinni: http://www.skolamjolk.is/Myndir/125/138/1/default.aspx
Á meðfylgjandi mynd eru, f.v. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, Baldur Jónsson frá Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins og Guðríður Halldórsdóttir fulltrúi frá MS /SS.