Beint í efni

Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu

08.12.2011

Kokkalandsliðið í samvinnu við bændur og útgáfufélagið Sögur hafa gefið út bókina „Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu“ þar sem áhersla er lögð á íslenskt hráefni, uppruna þess og einfaldar uppskriftir. Bændur eru áberandi í bókinni þar sem þeir miðla áhugaverðum fróðleik til lesenda um sína framleiðslu.

Í bókinni, sem er tæpar 200 síður, eru fjölmargar uppskriftir að grænmetisréttum, kjöt- og fiskréttum, eftirréttum og einnig er farið í brauðgerð og kökubakstur. Kokkalandsliðið hefur einfaldleikann að leiðarljósi í bókinni en miðað er við að ekki þurfi meira en 5 hráefni í hvern rétt. Margar uppskriftir eru sóttar í smiðju fyrri kynslóða en m.a. er sláturgerð tekin fyrir og að sjálfsögðu eru ýmsir þjóðarréttir eins og kjötsúpa á sínum stað.

Vorið 2009 voru framleiddir 20 sjónvarps- og vefþættir undir nafninu „Eldum íslenskt“. Bændasamtökin framleiddu þættina en stjórnandi var þáverandi yfirkokkur Hótel Sögu, Bjarni Gunnar Kristinsson. „Eldum íslenskt“ var sýnt á sjónvarpsstöðinni ÍNN en einnig á matarvef mbl.is. Að sögn Bjarna er bókin rökrétt framhald þáttanna en í fyrra gaf kokkalandsliðið út bókina „Einfalt með kokkalandsliðinu“ sem hlaut mjög góðar móttökur.

Það er útgáfufélagið Sögur sem gefa bókina út og dreifa henni. Bændasamtökin hafa skipulagt aðkomu bænda að útgáfunni en velflest búgreinafélög hafa komið að undirbúningi bókarinnar og stutt við markaðssetningu hennar. Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu er fáanleg í helstu bókabúðum landsins og matvöruverslunum sem selja bækur.

Á Facebook síðu Eldum íslenskt er hægt að sjá nánari umfjöllun en fram að jólum verða settar þar inn nokkrar vel valdar uppskriftir úr bókinni.