Eldistilraun á Facebook!
29.04.2014
Í mars sl. fór af stað tilraunaverkefni í starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Möðruvöllum í Hörgárdal sem ber heitið „Hámarks vaxtargeta íslenskra nauta til kjötframleiðslu“. Megin markmið tilraunarinnar er að ákvarða hámarks vaxtargetu íslenskra nauta í stíueldi, ásamt því að bera saman hámarks fóðrun og hefðbundna fóðrun m.t.t. fóðurmagns, fóðurnýtingar, eldistíma, sláturgæða, kjötgæða, framlegðar og kostnaðar við nautaeldi og kjötvinnslu.
Til að bera saman áhrif mismunandi eldis á slátur- og kjötgæði falla verða eftirfarandi þættir mældir eða metnir og skráðir í sláturhúsi:
• Þyngd skrokka og fallhlutfall.
• Íslenskt kjötmat og samkvæmt EUROP mati (holdfylling og fitustig).
• Sýrustig (pH) sólarhring eftir slátrun.
• Flatarmál hryggvöðva við næst aftasta rif.
• Samanburður einstakra vefja og vefjahópa (vöðvar/fita).
• Litamæling á vöðva.
. Kollagen- (bandvefs-) og fitumæling.
• Meyrni með áferðarmæli.
• Framlegð gripa í kjötvinnslu (afskurður).
Að lokinni allri gagnasöfnun kemur til tölfræðilegs uppgjörs og birtingar á niðurstöðum.
Tilgátan er að með sterkara eldi á ungnautum en nú tíðkast almennt sé hægt að auka verulega framlegð af þessari framleiðslu sem myndi þá væntanlega leiða til aukins framboðs á íslensku nautakjöti, búgreininni til hagsbóta.
Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á Facebook síðu þess, slóðin er hér að neðan.
Vaxtarhraði íslenskra nauta – Möðruvallatilraunin 2014-2017