Beint í efni

Eldgos í Grímsvötnum

22.05.2011

Kröftugt eldgos er hafið í Grímsvötnum og mikils öskufalls gætir í Skaftafellssýslum, frá Mýrdalssandi í vestri og austur fyrir Freysnes í Öræfum. Þjóðvegurinn er lokaður frá Klaustri og austur að Freysnesi og ekkert ferðafæri er á svæðinu þar sem öskufallið er mest. Skyggni til gosstöðvanna er ekkert og íbúar og ferðamenn á svæðinu eru hvattir til að halda kyrru fyrir og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Búfjáreigendur keppast nú við að koma fé sínu í skjól og tryggja því ómengað drykkjarvatn og fóður.

Almannavarnir meta það svo að ekki sé tilefni til þess að rýma svæðið. Búið er að opna fjöldahjálparstöðvar í félagsheimilinu á Klaustri og Hofgarði fyrir þá sem treysta sér til að fara á þá staði. Íbúar á svæðinu eru hvattir til að hafa samband við nágranna sína og veita hver öðrum stuðning. Búið er að virkja hjálparsíma RKÍ 1717.

Að sögn Almannavarna er verið að vinna í að koma rykgrímum og hlífðargleraugum til þeirra sem eru á svæðinu en það gengur hægt vegna aðstæðna á vettvangi.

Mikilvæg atriði:
- Fylgist með leiðbeiningum almannavarna og lögreglu
- Gætið að öskufalli á ykkar svæði
- Hýsið búfé þar sem því verður við komið
- Tryggið skepnum og útigangi hreint drykkjarvatn
- Gefið dýrum á útigangi hey, vel og oft
- Gott er að útigangur hafi hafi aðgang að saltsteinum
- Komið í veg fyrir að búfénaður drekki úr kyrrstæðu vatni
- Kynnið ykkur leiðbeiningar yfirdýralæknis á vef Matvælastofnunar
Bændur eru hvattir til að kynna sér viðbrögð við eldgosum. Nánari upplýsingar er að finna á vef Almannavarna á slóðinni www.almannavarnir.is og á vef Matvælastofnunar.

Gagnlegar vefsíður
Vefur Almannavarna: www.almannavarnir.is

Vefur Matvælastofnunar: www.mast.is

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Búnaðarsamband Suðurlands - Samantekt upplýsinga vegna eldgosa

Fræðsluefni
Bæklingur um viðbrögð við öskufalli

Hætta á heilsutjóni vegna gosösku - leiðbeiningar fyrir almenning

Grein um áhrif eldgosa á dýr

Skýrsla um áhrif eldgosa á dýr

Leiðbeiningar vegna öskufalls - Umhverfisstofnun

Bændablaðið, 6. tbl. 2010 - Umfjöllun í upphafi eldgoss í Eyjafjallajökli

Gosaska og vinnuvélar

Flúor í ösku - útskolun og viðbrögð - unnið í upphafi eldgoss í Eyjafjallajökli